Ofnbakaðar kjötbollur í dásamlegri kóksósu

Namm...
Namm... mbl.is/Ljúfmeti & lekkerheit

Ef þetta er ekki hinn fullkomni kvöldmatur þá vitum við ekki hvað. Hér er um að ræða kjötbollur með kóksósu en kók er sérlega vanmetið þegar kemur að matargerð. Sjálf veit ég fátt betra en kóksósuna sem mamma gerir með hamborgarhyggnum en kókið er í senn með mjög afgerandi bragð auk þess sem það er mjög sætt.

Það er Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem á heiðurinn að þessari uppskrift og það verður seint af henni tekið að hún eldar dásamlegan mat. Okkur grunar að það dreymi marga um að vera boðið í mat til hennar en þar til sá draumur rætist getum við huggað okkur við að hún deilir gleðinni á blogginu sínu – okkur og ykkur til mikillar lífsgæðaaukningar.

Tilbúnar í ofninn.
Tilbúnar í ofninn. mbl.is/Ljúfmeti & lekkerheit

Ofnbakaðar kjötbollur í dásamlegri kóksósu

Uppskrift fyrir 5 (sem kvöldverður)

  • 500 g nautahakk
  • 1 dl brauðraspur
  • 1 egg
  • 1 msk. vatn
  • 1 laukur, fínhakaður og skipt í tvennt (helmingur í bollurnar og helmingur í sósuna)
  • 1/2 tsk. ítölsk hvítlauksblanda (ég var með frá Pottagöldrum)
  • 1 lítil græn paprika, fínhökkuð og skipt í tvennt (helmingur í bollurnar og helmingur í sósuna)
  • salt
  • pipar
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2,5 dl tómatsósa (ég var með stevíu-tómatsósuna frá Felix)
  • 2,5 dl kók
  • 2 tsk. worchestershire-sósa

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 180° og spreyið 20×30 cm eldfast mót með olíu.
  2. Blandið vel saman nautahakki, brauðraspi, eggi, vatni, hálfum fínhökkuðum lauki, hálfri fínhakkaðri papriku, hvítlaukskryddi, salti og pipar. Rúllið blöndunni í bollur og raðið í eldfasta mótið.
  3. Setjið hálfan fínhakkaðan lauk, hálfa fínhakkaða papriku, pressuð hvítlauksrif, tómatsósu, kók, worchestershire-sósu, salt og pipar í skál og hrærið saman. Hellið yfir kjötbollurnar og setjið í ofninn í 50-60 mínútur. Snúið bollunum í sósunni tvisvar á meðan þær eru í ofninum. Athugið að ef það á að nota kjötbollurnar sem pinnamat er gott að hafa bollurnar aðeins lengur í ofninum (60 mínútur) til að þykkja sósuna. Ef það á að borða þær með pasta er betra að hafa þær í styttri tíma, til að fá meiri sósu.
Fullkomnar bollur!
Fullkomnar bollur! mbl.is/Ljúfmeti & lekkerheit
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert