Jólaosturinn í næsta partý

Auðvelt, fljótlegt og gott!
Auðvelt, fljótlegt og gott! mbl.is/TM

Jólahlaðborð og -hittingar raðast nú inn í dagatöl landsmanna en þá spyrja menn og konur sig gjarnan hvað sé lekkert að bjóða upp á sem tekur sem minnstan tíma í slíkum fordrykkjarboðum. Það var einmitt jólahlaðborð í vinnunni hjá mér um síðustu helgi og nokkrir samstarfsfélagar kíktu í fordrykk. Þá bauð ég upp á þennan fljótlega jólaost sem er afbragð og góður.

1 vænn ostur, t.d. gullostur 
1 msk. döðlusíróp 
1 msk. þurrkuð trönuber, söxuð 
1 tsk. ferskt rósmarín, saxað og meira til skreytingar 
3 msk. valhnetur, saxaðar 
1/4 tsk. kanill 

Hitið ofninn í 180 gráður.

Setjið ostinn í eldfast mót og hellið sírópinu yfir. Hneturnar og berin fara svo yfir sírópið og loks er rósmarín og kanil sáldrað yfir. 

Bakið ostinn í 10-15 mínútur eða þar til hann er farinn að mýkjast (gefur eftir þegar stungið er í hann án þess þó að hann sé byrjaður að leka af sjálfsdáðum.

Berið fram með kexi eða súrdeigsbrauði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert