Smá Köben fílingur á Hlemmi

Bryndís Sveinsdóttir hjá Rabba Barnum býður upp á íslenskt grænmeti, …
Bryndís Sveinsdóttir hjá Rabba Barnum býður upp á íslenskt grænmeti, súpur og ljúffengar samlokur. Ásdís Ásgeirsdóttir

Bryndís Sveinsdóttir hjá Rabbar Barnum var önnum kafin að afgreiða ljúffenga súpu og samlokur ofan í gestina en gaf sér tíma til að rabba. „Ég fæ hingað sent íslenskt grænmeti beint frá bændum í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna og þetta er allt upprunamerkt, mest er af Suðurlandinu. Svo erum við með þrjár tegundir af súpum daglega og er tómatsúpan okkar svakalega vinsæl. Svo klippir maður sjálfur basiliku út á,“ segir Bryndís.

„Við erum líka með vinsæla humar- og beikon samloku en Brauð og co. bakar brauðið fyrir mig á morgnana,“ segir hún og útskýrir að fólk geti sest hvar sem er í opna rýminu á Hlemmi.

„Konceptið hér á Hlemmi er að þú kaupir það sem þú vilt kaupa og situr þar sem þú vilt sitja. Þetta er yndislega gaman,“ segir hún.

„Það eru margir sem fá smá Köben fíling þegar þeir koma hingað.“

Soðið rauðkál með eplum
  • 350 g niðursneitt íslenkst rauðkál (½ meðalstór haus)
  • 1 epli, grænt
  • 1 rauðlaukur
  • 2 msk. olía
  • 100 ml hindberjasulta (eða önnur sulta)
  • 100 ml epla- eða rauðvínsedik
  • 2 msk. púðursykur (meira eftir smekk)
  • ¼ tsk. kanil (má sleppa)
  • pipar og salt

Aðferð:

  1. Skerið rauðkálið í mjóar ræmur.
  2. Flysjið eplið, kjarnhreinsið og skerið í litla bita. Saxið laukinn smátt.
  3. Hitið olíu í potti og látið laukinn krauma í nokkrar mínútur við fremur vægan hita.
  4. Bætið þá rauðkáli og epli út í og hrærið vel og látið krauma í smástund. Hrærið saman við sultu, ediki, púðursykri, kanil, pipar og salti og látið malla við hægan hita undir loki í um 45 mínútur.
  5. Hrærið öðru hverju og vatni bætt við ef þarf.
  6. Smakkið og bragðbætið með sykri eða ediki eftir smekk.

(Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir.)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert