Flippkokteill Ránar Flygenring

Eggjapúnsinn er hrikalega jólalegur og auðvitað próteinríkur sökum eggjanna!
Eggjapúnsinn er hrikalega jólalegur og auðvitað próteinríkur sökum eggjanna! mbl.is/Rán F

„Hér er komin uppskrift að eggjapúns, fullkomið fyrir aðventuna og þá sem eru áhugasamir um fugla og það sem úr þeim kemur,“ segir Rán Flygenring teiknari en við báðum hana að deila með okkur jólalegri uppskrift. Egg eru henni hugleikin þessa dagana þar sem hin skemmtilega bók Fuglar með myndum eftir Rán kom út fyrir skemmstu. Bókina skrifar Hjörleifur Hjartarson í félagsskap við spéfuglinn Rán en bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Rán smellti því í þennan guðdómlega kokteil til að skála fyrir tilnefningunni og öllum fuglum heims. „Í þessa uppskrift hef ég notað hænuegg, en það má sjálfsagt nota önnur egg. Ég smakkaði fyrst eggjapúns hjá kollega mínum Herði Lárussyni og kemur þessi uppskrift frá honum. Ég set reyndar aðeins minni sykur og bæti við kanel, fólk getur haft sína hentisemi með það. Margar eggjapúnsuppskriftir innihalda aðskilnað hvítu og rauðu og mikla þeytivinnu, en þessi uppskrift er megaeinföld og hentar vel þeim sem eiga bara handþeytara.“

Rán er hrikalega flinkur teiknari og eggjapúnsari.
Rán er hrikalega flinkur teiknari og eggjapúnsari. mbl.is/aðsend

Eggjapúns

6 egg
1/4 tsk múskat
1 tsk vanilludropar (eða vanillustöng)
1 bolli sykur
1 bolli mjólk
1 bolli rjómi
3/4 bollar romm
1/3 bolli koníak eða brandí

Egg og sykur þeytt saman í 3-6 mínútur. Restinni blandað út í, hrært, kælt (yfir nótt) og síðan drukkið.
mbl.is