Sósaður saltfiskur með rjómaosti

Saltfiskrétturinn er meinhollur og gómsætur.
Saltfiskrétturinn er meinhollur og gómsætur. mbl.is/TM

Við höfum einstaklega gaman af því að færa ykkur fréttir af ævintýrakokkinum Kristó sem heldur uppi almennri starfsgleði hjá Árvakri. Í dag var boðið upp á þennan tímamóta saltfiskrétt og var ánægjan svo mikil meðal starfsmanna að við gátum ekki annað en fengið uppskriftina hjá heilögum Kristó til að lesendur Matarvefjarins gætu tekið þátt í gleðinni.

Í yfirheyrslu slumpaði Kristó markvisst á innihaldið en þetta lætur nærri lagi.

Sósaður saltfiskur með rjómaosti

 • Léttsaltaður þorskhnakki 500 g
 • 6 msk. hveiti
 • 1/2 tsk. pipar
 • 1 tsk. óregano
 • 1 tsk. basil
 • 3 vænar kartöflur, soðnar og skornar í þunnar sneiðar 
 • 1 - 2 dl ólífur (grænar og svartar)
 • 3 msk. rjómaostur
 • 100 g rifinn ostur
 • 2 msk. olía
Sósa:
 • 1 laukur, saxaður
 • 1 hvítlaukur, saxaður
 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 1 msk Ítalskt krydd
 • olía

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 220 gráður.
 2. Sjóðið kartöflurnar.
 3. Veltið fiskinum upp úr hveiti, pipar, óreganó og basil og setjið í ofnfast mót, skvettið olíunni yfir og bakið inni í ofni í 10 mínútur.
 4. Skerið kartöflurnar í þunnar sneiðar og setjið út á fiskinn.
 5. Sósa: Skerið allt saman niður. Steikið laukinn og hvítlaukinn fyrst upp úr olíu og setjið síðan afganginn saman við og látið malla í klukkustund. 
 6. Hellið sósunni yfir og loks skreyta með ólífum og rifnum osti. Til hátíðarbrigða skal setja nokkrar dúllur af rjómaosti yfir.
 7. Lækkið hitan á ofninum og bakið í ofninum á 180 gráðum í 20 mínútur eða þar til osturinn er orðin gullinbrúnn og fagur.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Ólífurnar setja punktinn yfir i-ið.
Ólífurnar setja punktinn yfir i-ið. mbl.is/TM
mbl.is