Veitingastaðurinn á Holtinu lokar

Friðgeir Ingi Eiríksson.
Friðgeir Ingi Eiríksson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Friðgeir Ingi Eiríksson, eigandi veitingastaðarins Gallery Restaurant á Hótel Holti, hyggst loka veitingastaðnum á Holtinu um áramótin en til stendur að opna nýjan og glæsilegan veitingastað á næsta ári. Það fer því hver að verða síðastur að fara á Holtið og snæða á Gallerí Restaurant sem er einn rómaðasti veitingastaður landsins.

Í samtali við Matarvefinn sagði Friðgeir að það væru spennandi tímar fram undan. „Við opnum nýjan stað í lok mars sem mun heita Brasserie Eiríksson og verður staðsettur á Laugavegi 77.“ Að sögn Friðgeirs er þetta búið að standa til í einhvern tíma en ákveðið var að framlengja ekki samninginn við hótelið um áframhaldandi leigu á húsnæðnu.

„Hugmyndin á bak við nafnið eða að kalla þetta brasserie er tilvísun í nútímalegu þýðingu orðsins, það er meira „casual“ en samt sömu gæðin. Þetta verður ekki "fine dining" og verðið í samræmi við það en þeir sem mig þekkja geta treyst á sömu bragðgæðin út í gegn,“ segir Friðgeir en með í för fylgir allt starfsfólkið á Gallery Restaurant. Hvað tekur við á Holtinu á eftir að koma í ljós en nú fer hver að verða síðastur að borða hjá Friðgeiri á Galleryinu sem hefur fyrir löngu skapað sér sess í matarsögu landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert