Gullfallegt heimabakað jólaskraut Auðar

Piparkökuhúsið er sannkallað augnayndi og lítið mál að gera að …
Piparkökuhúsið er sannkallað augnayndi og lítið mál að gera að sögn Auðar. mbl.is/

17 sortir voru að setja á markað piparkökudeig sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað fyrir þá staðreynd að þetta deig hentar vel til baksturs á piparkökuhúsum og öðrum jólaskreytingum. Auður Ögn Árnadóttir, eigandi 17 sorta, tók baksturinn alla leið og bakaði guðdómlegt jólaskraut án mikillar fyrirhafnar.

Auður segir þetta deig sameina allt það sem þarf í gott piparkökudeig. Hún hafi lagt upp með að það yrði einstaklega bragðgott og svo skemmir ekki hvað það hentar vel í útskurð og skreytingar og sérstaklega gott er að vinna með það. En deigið þarf þó að vera búið að ná stofuhita til þess að það sé þægilegt að meðhöndla það og best að taka það úr kæli nokkrum klukkustundum áður en það er flatt út, skorið og bakað.

Heimabakað jólaskraut er ekki bara fallegt heldur ilmar vel líka.
Heimabakað jólaskraut er ekki bara fallegt heldur ilmar vel líka. mbl.is/

„Best er að fletja deigið út á milli tveggja arka af smjörpappír til að ná því nógu þunnu og sérstaklega er þetta mikilvægt ef ætlunin er að gera hús eða stærri skreytingar.“

Auður gerði sitt piparkökuhús þannig að einungis er um framhlið að ræða sem er haldið uppi sem stoðum hvorri sínu megin. Þannig getur maður skreytt með fallegu piparkökuhúsi án þess að það taki allt of mikið pláss og svo sleppur maður líka við að setja allt saman, sem er mikill plús. „Ég er löngu hætt að brasa með heita sykurbráð til að setja saman piparkökuhús og nota bara límbyssu til að tylla þessum stoðum sem ég nota,“ segir Auður. Það hefur hvort sem er enginn lyst á að borða rykfallið piparkökuhús sem er búið að standa uppi vikum saman,“ segir Auður, alsæl með útkomuna.


„Ég fékk hjálp frá grafískum hönnuði hjá Krónunni til að búa til sniðmát sem hægt er að hlaða niður og prenta út ef fólk hefur áhuga á baka svona hús eins og ég gerði, það er hægt að nota það eins og það kemur fyrir eða stækka upp eins og ég valdi að gera hér. Fólk getur farið inn á heimasíðu Krónunnar og halað þessu niður.“

Smelltu hér til að fá sniðmótin.

„Það er æðislega gaman að nota alls kyns piparkökumót til að skera út deigið en það er þó alls ekki nauðsynlegt, því á Krónuvefnum er einnig að finna snið sem hægt er að prenta út og nota til að skera út kökurnar. Þar eru jólakúlur í ýmsum stærðum og nýtti ég mér þann kost þegar ég gerði piparkökurnar sem fara á „piparkökutréð“. Sumar kökurnar þar eru skornar út með sniði en aðrar með móti en allar eiga þær það sameiginlegt að vera skreyttar með Royal Icing sem er sykurbráð sem rennur ekki út eins og hinn hefðbundni glassúr og er því mikið auðveldari viðfangs,“ segir Auður og deilir með okkur skotheldri uppskrift að skrifvænni sykurbráð.

Góð uppskrift að Royal Icing

375 gr. flórsykur
70 ml vatn
4 tsk. eggjahvítuduft eða "marenge powder" frá Wilton

Þeytt saman í 5-6 mínútur

Að sögn Auðar er heldur alls ekki flókið að gera piparkökukransinn, það þurfi einfaldlega að leggja eitthvað kringlótt á smjörpappír, teikna hring og nota hann sem viðmið. Síðan er eitthvert fallegt form (má vera hringur, snjókorn, hjörtu eða hvað sem er) notað til að skera kökurnar út og þær lagðar niður á hringinn, en látnar skarast þangað til hringnum er lokað. „Bæði piparkökuhúsin og kransana þarf að baka þó nokkuð lengur en segir á umbúðunum þar sem þetta er miklu meiri massi en lagt er upp með. Ég mæli með 10-12 mínútum.“

Aðspurð hvort hún skreyti mikið fyrir jólin segir Auður að hún verði að játa það, hún sé hins vegar nýjungagjörn og sé alltaf að finna upp á einhverju nýju. „Ég ákvað t.d. að þetta árið yrði ég með bleikt og svart þema ásamt náttúrulegum efnum eins og tré, könglum og piparkökum. Það gerðist eiginlega bara óvart, því ég átti bleik kerti þegar ég byrjaði og rótaði þangað til ég fann bleikan borða og svo vatt þetta upp á sig. Ekkert útpælt eða að yfirlögðu ráði, svona hlutir gerast bara.“

Ilmandi jólaskraut sem gaman er að útbúa með fjölskyldunni.
Ilmandi jólaskraut sem gaman er að útbúa með fjölskyldunni. mbl.is/aðsend

„Aðventuskreytinguna er ég búin að eiga árum saman en hef alltaf skreytt hana á mismunandi hátt, í ár skellti ég á hana svartri málningu sem mér finnst skemmtileg andstaða við bleiku kertin og græna grenið. Eins finnst mér ómissandi að stilla upp skrauti sem börnin mín hafa föndrað í gegnum árin og þá vel ég úr kassanum það sem mér finnst passa við hverju sinni og hef ekki allt uppi við í einu. Mér finnst það líka gefa þessum hlutum einhvern veginn meiri vigt og meiri sjarma ef þeir eru ekki rifinir upp á hverju ári,“ segir fagurkerinn Auður og bendir á að það þarf ekki að kosta mikið að breyta til. Það nægir t.d. að þræða nýjan litríkan borða í allt jólaskrautið á jólatréð ef þú vilt fá nýtt útlit á tréð.“

Smart leið til að gera aðventukransinn persónulegri.
Smart leið til að gera aðventukransinn persónulegri. Mbl.is/aðsend
Takið eftir fallegum kransinum.
Takið eftir fallegum kransinum. mbl.is/
Áramótaskrautið má vel vera heimabakað!
Áramótaskrautið má vel vera heimabakað! mbl.is/aðsend
mbl.is