Forstjórinn bruggar fyrir starfsmenn

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, með Ölgjörvann góða.
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, með Ölgjörvann góða. mbl.is/

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, og félagar hans í bjórklúbbi fyrirtækisins brugga á annað þúsund lítra af bjór fyrir samstarfsfólk sitt og viðskiptavini. Bjórinn kallast Ölgjörvi og verður á boðstólnum á nýársgleði Advania.

Í samtali við Matarvefinn sagði Ægir að mikill áhugi starfmanna hefði verið kveikjan að brugginu en kunnáttan hefði jafnframt verið töluverð. „Hér voru nokkrir bruggarar og þar á meðal einn, Guðmundur Karl Karlsson, sem hafði sigrað bruggkeppni með bjór sem hann kallaði Austra.“

Það var því ekki langt að sækja þekkinguna en í ár verður boðið upp á Ölgjörva 3.0 sem jafnframt er þriðji árgangurinn. Mikill metnaður er jafnan lagður í umbúðahönnun og ágangur í birgðirnar slíkur að í fyrra kláraðist upplagið á undraverðum hraða.

Ölgjörvi 1.0 var fyrsta upplagið og var bruggaður hjá Gæðingi í Skagafirði. Starfsmenn Advania voru þá með í ferlinu frá hugmynd að þróun uppskriftar og tóku þátt í sjálfri framleiðslunni. Úr urðu 600 lítrar af vel humluðu fölöli.

Mikið er lagt í framleiðsluna ár hvert.
Mikið er lagt í framleiðsluna ár hvert. mbl.is/
Eftir frábærar viðtökur við fyrstu árgerð Ölgjörvans var brugðið á það ráð að auka framleiðsluna. 900 lítrar af Ölgjörva 2.0 voru því bruggaðir af starfsfólki Advania hjá Bryggjunni í fyrra. Þótt bjóráhugafólkið vilji stuðla að hóflegri drykkju verður bruggað töluvert meira magn í ár, ekki síst í ljósi þess hve hratt (og grunsamlega) birgðirnar kláruðust í fyrra.
Ægir segir að Ölgjörvi sé mjög vandaður bjór og lýsir honum sem „góðum bjór fyrir fólk sem fílar vonda bjóra.“ 
„Þetta er mjög góður bjór sem flestir geta drukkið en svo bættum við um betur í ár og brugguðum annan sem er meiri nördabjór og kannski ekki allra,“ segir Ægir en 200 lítrar verða bruggaðir af „nördabjórnum“.
Það verða því framleiddir um 1.500 lítrar af Ölgjörva 3.0 sem nú eru í gerjun hjá Ölvisholti en „nördabjórinn“ er í framleiðslu hjá Ölverki. Nú byggir framleiðslan alfarið á uppskrift starfsmanna Advania en þess má geta að Advania er að sjálfsögðu með vínveitingaleyfi í höfuðstöðvunum sakir bjóráhuga starfsmanna en hjá fyrirtækinu starfa 625 manns. Í bjórklúbbnum góða eru yfir 200 starfsmenn eða tæpur þriðjungur starfsmanna sem telst ansi gott.
Metnaður í verki.
Metnaður í verki. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert