Besta hangikjötið að mati álitsgjafa Matarvefjarins

Hangikjöt er nauðsynlegt á hvert hátíðarborð um jólin.
Hangikjöt er nauðsynlegt á hvert hátíðarborð um jólin. mbl.is/eldhússögur

Við tökum okkur mjög alvarlega á Matarvefnum (eðlilega) og ákváðum að ráðast í það viðamikla verkefni að smakka hangikjöts- og hamborgarhryggjaúrvalið á markaðnum í dag í þeirri viðleitni að auðvelda okkar ástkæru lesendum valið. Álitsgjafarnir voru ekki af verri endanum enda miklir matarspekúlantar og verður ekki annað sagt en að þeir hafi lagt mikinn metnað í verkið.

KEA hangilæri: Þetta kjöt þótti bragðmilt en bragðgott, með höfgu reykbragði og lágri seltu. Reykbragðið var ekki of harkalegt heldur milt og mikið. Almennt voru álitsgjafarnir ánægðir með þetta kjöt og það virðist passa vel í hvers kyns veislur og fínerí enda í miklu jafnvægi og ekki of salt.

Húsavíkurhangikjöt – tvíreykt: Þetta kjöt þótti sveitalegt og gott. Einn álitsgjafinn hafði á orði að það væri meyrt og safaríkt og ekki of salt. Það þykir jafnframt bragðgott með góðu reykbragði.

Fjallahangikjöt frá Norðlenska: Gott reykbragð og milt. Seltan milt og mjög svo aðgengilegt kjöt sem gæti hentað flestum. Það var jafnframt haft á orði að það væri meyrt og í góðu jafnvægi.

Sambands-hangilæri: Álitsgjafarnir voru sérlega hrifnir hér og töluðu um að kjötið væri bragðmikið og vel salt. Einhver talaði um kryddbragð sem hann áttaði sig ekki á sem gerir allt meira spennandi en heilt yfir framúrskarandi kjöt.

Húsavíkurhangikjöt: Þessi biti er saltur og er því heppilegur fyrir þá sem vilja hafa sitt kjöt þannig. 

Tvíreykt hangikjöt frá Íslandslambi: Sérlega milt kjöt og meyrt. Í góðu jafnvægi og sérlega heppilegt fyrir þá sem vilja hafa hangiketið sitt í mildari kantinum og hentar því vel í stór boð þar sem sitt sýnist hverjum um hvernig hangikjöt eigi að vera.

Birkireykt hangikjöt frá SS: Þetta kjöt vakti mikla hrifningu og þótti til fyrirmyndar í öllum bragðgæðum. Ögn sætara á bragðið og einn álitsgjafinn hafði á orði að þetta væri kjötið sem hann myndi velja fyrir sína veislu. Hvorki salt né mikið reykt.

Taðreykta hangikjötið frá SS: Þetta hangikjöt er er fremur salt og ekki allra en fyrir þá sem vilja ekkert hálfkák er það ákaflega heppilegt val. Taðreykingin er alltaf í uppáhaldi hjá mörgum og hér er ekkert verið að bregða út af vananum.

Kofareykt norðlenskt hangikjöt frá Kjarnafæði: Virkilega bragðgott kjöt með fínu eftirbragði. Í góðu jafnvægi og skemmtilega bragðmikið og gott. Nokkuð dökkt á litinn og skemmtilega áferðarfallegt.

Norðlenskt taðreykt hangikjöt frá Kjarnafæði: Bragðmikið en þó með áhugaverðum keim sem er klárlega eitthvað fyrir hangikjöts-unnendur. Ljósara en kofareykta kjötið og með áhugaverðu eftirbragði sem erfitt var að bera kennsl á. Ekki endilega allra en þó öruggt val fyrir þá sem vilja alvöru hangikjötsbragð.

Álitsgjafar Matarvefjarins voru þau Ásdís Ásgeirsdóttir, Árni Matthíasson, Svala Þormóðsdóttir og Hjalti Stefán Kristjánsson.

Og um allan undirbúning sá meistarakokkur Árvakurs, Kristófer H. Helgason.

Smakkar að störfum.
Smakkar að störfum. Mbl.is/TM
Mbl.is/TM
Ásdís og Árni að störfum.
Ásdís og Árni að störfum. Mbl.is /TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert