Heilsteikt aliönd með perum og gráfíkjum

Önd er vinsæll veislumatur.
Önd er vinsæll veislumatur. mbl.is/Nanna R

Þótt Nanna sé lítið jólabarn á hún ekki í erfiðleikum með að galdra fram girnilega jólauppskrift fyrir lesendur. Hún gerði sér lítið fyrir og reiddi fram hátíðlega önd, sem er tilvalin á jólunum eða öðrum tyllidögum. Nanna segir að gott geti verið að hafa einhverskonar rækju- eða humarrétt í forrétt, og jafnvel heimagerðan súkkulaðiís í eftirrétt.

„Þetta kallar svo sem ekki á neitt sérstakt. Mér finnst bara um að gera að hafa ekki eitthvað allt of þungt og salt í matinn,“ segir Nanna.

Heilsteikt aliönd með perum og gráfíkjum

Fyrir 3-4

Þessi uppskrift er úr bókinni Pottur, panna og Nanna, en hér er öndin þó fyllt og meðlætið annað. Mér finnst best að brúna öndina bæði í upphafi og í lokin en hafa hægan millikafla.

  • 1 aliönd
  • pipar og salt
  • 2 perur (eða epli)
  • 100 g gráfíkjur (eða apríkósur)
  • 2 laukar
  • 2-3 gulrætur
  • 2 sellerístönglar
  • 2 rósmaríngreinar (einnig má nota timían)
  • 1-2 lárviðarlauf
  • 250 ml vatn, sjóðandi
  • sósujafnari eða hveiti til þykkingar

Hitaðu ofninn í 230°C. Taktu innmatinn úr öndinni og skerðu hann í bita. Þerraðu öndina vel með eldhúspappír. Gott er að skera krossmynstur í fitulagið á bringunni – en ekki niður í kjötið – til að feitin sem bráðnar af öndinni geti auðveldlega runnið niður.

Kryddaðu öndina að innan og utan með pipar og salti. Flysjaðu perurnar og skerðu þær í fjórðunga og skerðu gráfíkjurnar í tvennt. Fylltu öndina með ávöxtunum.

Skerðu lauk, gulrætur og sellerí niður og dreifðu á botninn á stórum steypujárnspotti eða eldföstu móti með þéttu loki. Dreifðu innmatnum yfir, ásamt kryddjurtunum, og kryddaðu með pipar og salti.

Settu öndina ofan á með bringuna upp og steiktu hana í um 20 mínútur. Helltu þá sjóðandi vatni í pottinn, settu lok á hann, lækkaðu hitann í 140°C og steiktu öndina í um 1½ klst.

Taktu pottinn út og hækkaðu hitann aftur í 230°C. Helltu soðinu úr pottinum í sigti sem haft er yfir skál. Settu pottinn með öndinni aftur í ofninn, án loks, og steiktu í um 15 mínútur, eða þar til hamurinn er fallega gullinbrúnn og stökkur.

Taktu öndina þá út og láttu hana bíða á meðan sósan er búin til: Fleyttu mestalla fituna ofan af soðinu. Settu það í pott og hitaðu að suðu. Þykktu það með sósujafnara eða hveitijafningi, smakkaðu og bragðbættu eftir smekk.

Settu öndina á stórt fat og dreifðu meðlæti (gjarna litríku) allt í kring. Meðlætið á myndinni er heimagert rauðkál, heilar litlar perur léttsoðnar í sítrónuvatni, heilar gráfíkjur, gufusoðið spergilkál, mandarínuhelmingar léttsteiktir í smjöri, radísur, pekanhnetur og bláber, skreytt með fersku lárviðarlaufi og steinselju.

Með þessu er svo upplagt að hafa soðnar og smjörsteiktar kartöflur, auk sósunnar.

Nanna Rögnvaldsdóttir er engri lík í eldhúsinu.
Nanna Rögnvaldsdóttir er engri lík í eldhúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert