Heimagerð hindberjaísterta

Ísterta með hindberjum.
Ísterta með hindberjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ístertur eru í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri. Það er einhvers konar blanda af ást á rjómaís og marengstertum en í alvöru heimagerðum ístertum er hægt að blanda þessu tvennu saman. Það er líka um að gera að blanda því saman sem manni þykir gott.

Þú gætir til dæmis sett hindberjaísinn ofan í kókósbotninn og súkkulaðið eða öfugt. Bragðskyn fólks er nefnilega misjafnt og ef fólk er með ákveðinn uppskriftargrunn er svo auðvelt að leika sér með restina.

Eldhúsið á alls ekki að vera staður þar sem einhver er hlekkjaður við eldhústæki heldur eigum við að leika okkur í eldhúsinu, skapa og búa til eitthvað nýtt. Gera okkar útgáfur af lífsins réttum.

Heimagerð hindberjaísterta

Botn

  • 3 eggjahvítur
  • 50 g púðursykur
  • 100 g möndlur sem búnar eru að fara nokkra hringi í blandaranum
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk eplaedik

Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í. Þegar deigið er orðið stíft og flott er möndlukurli, lyftidufti og eplaediki bætt út í. Setjið deigið í smelluform og notið endilega bökunarpappír því þá er þægilegra að koma ístertunni saman.

Botninn er bakaður við 150 gráður í 40 mínútur.

Hindberjaís

  • 3 eggjarauður
  • 50 g púðursykur
  • 3 dl þeyttur rjómi
  • 150 g frosin hindber

Þeytið rjómann og setjið til hliðar. Þá næst eru eggjarauður þeyttar vel saman ásamt púðursykri. Þegar blandan er orðin ljós og létt er rjómanum bætt út í og hrært varlega saman við. Í lokin er frosnu hindberjunum bætt út í rjómann.

Þegar botninn er orðinn kaldur og ísinn klár er ísinn settur ofan á botninn í smelluforminu og hann settur inn í frysti. Það tekur í kringum átta klukkutíma að láta ísinn frjósa almennilega en þá er hann líka tilbúinn á borðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »