Lambafillet með stökkri puru

Rósmarín á ákaflega vel við lambakjöt og gott er að …
Rósmarín á ákaflega vel við lambakjöt og gott er að nota það einnig á ofnbakaðar kartöflur. mbl.is/MS

Lambafillet er huggulegur matur sem gott er að eiga í fyrsti og hægt er að elda á hinn ýmsa máta. Til dæmis sous-vide eða marinera og steikja á pönnu eins og Helena Gunnar matarbloggari hjá Gottimatinn.is gerir hér. 

Lambafillet með stökkri puru

  • 1.200 g lambafillet (1 stk. á mann)
  • gott sjávarsalt
  • nýmalaður pipar
  • 2 stk. ferskar timíangreinar (2-3 stk.)
  • 1 dl ólífuolía
  • 50 g smjör

Aðferð:

  1. Ef ætlunin er að hafa lambakjöt í kvöldmat er gott að taka það úr ísskápnum að morgni. Snyrta bitana, skera af aukafitu og sinar ef einhverjar eru og skera í fituna tíglamynstur niður að kjötinu. Gætið þess að skera ekki í kjötið sjálft. Kjötið er svo kryddað vel með salti og pipar. Sett í fat og ólífuolíu hellt yfir kjötið og því velt vel upp úr henni. Svo er fatið sett inn í ísskáp, engin filma yfir og fituhliðin látin snúa upp.
  2. Einni klst. áður en kjötið er eldað er gott að taka það úr ísskápnum og leyfa því að ná stofuhita.
  3. Hitið ofn í 180°C. Bræðið 50 g af smjöri á pönnu við meðalháan hita, setjið timíangreinarnar í smjörið og leyfið þeim að krauma með. Steikið kjötið svo á fituhliðinni í smjörinu í góðar fjórar mínútur eða þar til puran er gullin og stökk. Snúið þá kjötinu við og stingið inn í ofn í 10-12 mínútur. Þá ætti steikin að vera fallega bleik í miðjunni. Ef þið viljið gegnsteikja kjötið er vissara að hafa það í 15-17 mínútur í ofninum.
  4. Þegar kjötið er tekið út er smjörinu og fitunni sem er á pönnunni ausið yfir kjötið. Leyfið kjötinu svo að standa í 10 mínútur áður en það er skorið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert