Villisveppasósa með púrtvínskeim – guðdómlega góð

Hrikalega góð sósa! Hrikalega!!!
Hrikalega góð sósa! Hrikalega!!! mbl.is/TM

Þessi sósa var borin á borð með Wellington-nautakjöti á mínu heimili fyrir skemmstu. Sósan var klárlega stjarna kvöldsins og verður án efa gerð aftur með góðu lamba- eða nautakjöti.

Villt sveppasósa sem tryllir

1 laukur
2 msk. smjör
150 g blandaðir sveppir (má blanda venjulegum, kastaníu- og þurrkuðum villisveppum sem búið er að láta liggja í vatni)
2 msk. fljótandi nautakjötskraftur (eða rúmur teningur)
1 dl vatn
500 ml rjómi 
1 tsk. ferskt timj­an, laufin rifin af stönglinum 
4 msk. púrtvín (ég nota Sanderman)
1/2 tsk. dijon-sinnep 
1/3 tsk. sjávarsalt 
1/2 tsk. nýmalaður pipar
Sósulitur ef vill

Saxið laukinn og steikið upp úr smjöri. Þegar hann er farinn að mýkjast fara saxaðir sveppirnir saman við.

Krafturinn og vatnið fara því næst í pottinn og látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur eða þar til krafturinn hefur samlagast innihaldinu. Þá fer rjóminn út í. Timjan og sinnep fer svo saman við. Látið suðuna koma upp og malla í 5 mínútur. Lækkið undir og bætið púrtvíninu, salti og pipar við. Smakkið til og látið malla við lágan hita í 5 mínútur til að þykkja. Setjið sósulit ef þið viljið dökka sósu.

mbl.is