Lasagna sem er auðvelt að gera vegan

mbl.is/Albert eldar

Meistari Albert Eiríksson segir að fyrsti maturinn sem hafi verið eldaður á heimilinu eftir að stórhátíðarofátinu lauk hafi verið þetta spínat-lasagna. Hann segir að auðvelt sé að breyta réttinum í vegan-rétt með því að sleppa ostinum ofan á og hafa einungis kókosmjöl.

Hann er uppfullur af góðum ráðum og segir að með þessu spínat-lasagna sé upplagt að bera fram gott salat. Einnig sé gott að setja hvítlauks- eða chili-olíu yfir áður en formið er sett á borðið.

Spínatlasagna

  • 1 bolli góð matarolía
  • 1 stór laukur
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • 500 g kartöflur
  • 3-400 g sætar kartöflur
  • 600 g frosið spínat
  • 1½ msk. cummin
  • 1 tsk. múskat
  • 1 tsk. kóríander
  • salt og pipar
  • smá chili
  • lasagna-plötur
  • kókosmjöl
  • rifinn ostur

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar en kælið þær ekki. Saxið laukinn og steikið í olíunni ásamt hvítlauk. Setjið frosið spínat saman við. Grófmerjið kartöflurnar og látið út í. Kryddið með múskati, cummin, salti, pipar, chili og blandið vel saman. Spínatið á að þiðna alveg í pottinum og losna í sundur.
  2. Afhýðið sætu kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar.
  3. Setjið í eldfast form með lasagne-plötum og sætu kartöflunum á milli. Dreifið kókosmjöli og rifnum osti yfir og bakið í um 40 mín. á 150°C
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert