Vinsæll réttur hjá öllum kynslóðum

mbl.is

Steingrímur Sigurgeirsson, sem er með vefinn vinotek.is, veit að þegar mikið er að gera er það oft hausverkur hvað eigi að vera í kvöldmatinn. Hann segir að í slíkum tilvikum verði pasta bolognese oftar en ekki fyrir valinu og þetta sé fljótlegur, góður og vinsæll réttur hjá öllum kynslóðum.

Ítalir kalla þessa kjötsósu með pasta „ragú“ og hún er til í óteljandi útgáfum, líklega á hvert ítalskt heimili sína útgáfu. Klassískar útgáfur gera ráð fyrir því að sósan sé hægelduð klukkustundum saman en hversdagsútgáfan hans Steingríms er fljótleg og fín, það tekur nokkurn veginn jafnlangan tíma að gera sósuna og að ná upp suðu í vatnspottinum og sjóða síðan pastað.

Pasta Bolognese

  • 500 g nautahakk
  • stór laukur
  • chiliflögur
  • msk hvítlauksrif, fínt söxuð
  • sjávarsalt
  • 1-2 tsk óreganó
  • msk tómatpúrra
  • smá hvítvín eða rauðvín (má sleppa)
  • 5 dl maukaðir tómatar eða passata
  • 1 dl vatn
  • ólífuolía
  • parmesan (rifinn yfir í lokin)

Aðferð:

  1. Byrjum á því að saxa fínt niður einn stóran lauk og mýkjum hann á pönnu í ólífuolíu á rúmlega miðlungshita.
  2. Setjum góða klípu af chiliflögum út á með lauknum. Þegar laukurinn er farinn að mýkjast er nokkrum fínt söxuðum hvítlauksrifjum bætt út á, matskeið eða svo.
  3. Leyfum honum aðeins að steikjast með í örfáar mínútur og bætum þá 500 grömmum eða svo af nautahakki út á.
  4. Þegar búið er að brúna hakkið söltum við með góðu sjávarsalti og kryddum með teskeið eða tveimur af óreganó.
  5. Blandið næst um matskeið af tómatapúrru saman við og látum malla á pönnunni í 1-2 mínútur.
  6. Á þessu stigi er gott ef maður á það til að hella smá skvettu af hvítvíni eða rauðvíni á pönnuna og sjóða niður til að dýpka bragðið.
  7. Ef það er ekki til má alveg sleppa því. Næst er 5 dl af maukuðum tómötum bætt saman við. Ef við erum ekki að flýta okkur þá notum við heila tómata úr dós en þeir þurfa að eldast í lengri tíma til að verða að sósu. Þess vegna verður tómata-„passata“, maukaðir og síaðir ítalskir tómatar, oft fyrir valinu.
  8. Bætum líka um desílítra eða svo af vatni saman við. Leyfum þessu öllu að malla á rúmum miðlungshita á meðan pastað er að sjóða.
  9. Það skiptir máli að velja gott ítalskt pasta, spaghetti eða fettucine, og það á auðvitað ekki að mauksjóða, heldur hafa örlítið bit, al dente.
  10. Við borðið þarf síðan að vera parmesan-ostur til að rífa yfir og ef til er ólífuolía í hæsta gæðaflokki geta nokkrir dropar af henni á diskinn gert kraftaverk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert