Ljúffengt lasagna að hætti sjúkraþjálfarans

Sandra heldur mikið upp á þetta lasagna sem vel er …
Sandra heldur mikið upp á þetta lasagna sem vel er hægt að borða með góðri samvisku. mbl.is/Árni Sæberg

Sandra Dögg Árnadóttir sjúkraþjálfari, fyrrverandi landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum og fagstjóri hjá Hreyfingu, þykir gera eitt besta grænmetislasagna á landinu. Við blikkuðum hana og fengum uppskriftina sem er algjört æði! 

Ljúffengt lasagna

Tómatmassi

600-700 g brokkolí og blómkál. Brytja smátt niður þannig að þetta sé eins og nautahakk. Mínum börnum finnst það betra.
2 krukkur niðursoðnir tómatar – forðast tómatvörur úr áldósum.
2 litlar krukkur tómatpasta/tómatpúrra – forðast tómatvörur úr áldósum.
3 stk. hvítlauksgeirar, pressaðir í hvítlaukspressu. Ég elska hvítlauk en það má nota minna.
1 ½ msk. basilíka, þurrkuð eða fersk. Klippi niður eina handfylli.
2 tsk. sjávarsalt. 

Tómatmassinn soðinn loklaust í 30 mín. Ég er alltaf að prófa mig áfram með tómatvörur. Prófaði núna seinast vörurnar frá Himneskt en notaði þá meira krydd.

Ostamassi

2-3 hrærð egg
2 stórar dollur kotasæla
½ bolli parmesan (meira heldur en minna), rifið niður
2 msk. steinselja, þurrkuð eða fersk, þá klippi ég niður eina handfylli
1 tsk. sjávarsalt
Pipar eftir smekk 

Hræri öllu saman í skál.

Smyr eldfast mót með góðri hitaþolinni olíu, núna er ég að nota avókadóolíu. Tómatmassinn er aðeins meiri en ostamassinn. Ég geri oftast 3 lög af tómatmassanum á móti 2 lögum af ostamassanum.

1 ½ pakki af lasagnaplötum, heilhveiti eða grænar (spínat). Það er líka gott að skera kúrbít (zukkini) í þunnar sneiðar, þurrka í ofni við lágan hita og nota í stað pastaplatna.

Sett saman

Lag af tómatmassa – raða lasagnaplötum yfir – lag af ostamassa og svo koll af kolli. Enda á tómatmassa.

Rifinn mozzarella-ostur yfir eftir smekk.

Sett í ofninn í 45 mín. við 180°. Gott að setja í ofninn fyrst í 15 mín. með engan ost yfir og svo setja ostinn og aftur inn í 30 mín.

Ferskt krydd gerir allan mat betri.
Ferskt krydd gerir allan mat betri. mbl.is/Árni Sæberg
Girnilegt og gott fyrir alla fjöslkylduna.
Girnilegt og gott fyrir alla fjöslkylduna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert