Stefna að því að opna eftir mánuð

Meðal annars fór fram hópfjármögnun á Karolina Fund og nú …
Meðal annars fór fram hópfjármögnun á Karolina Fund og nú hyllir í opnun því samkvæmt þremenningunum er stefnt að opnun eftir mánuð eða svo. mbl.is/ómar sverrisson

Nú þegar veganúar er senn á enda standa margir eftir í hálfgerðu tómarúmi og því ekki úr vegi að forvitnast um hvað sé að frétta af veitingastaðum Veganæs sem þau Linnea Hellstöm, Krummi Björgvinsson og Örn Tönsberg eru að opna. 

Þremenningarnir eru öll vegan og mjög svo skapandi einstaklingar. Veganæs verður fyrsti veitingastaðurinn sinnar tegundar sem byggir að grunni á grimmdarlausri stefnu.

„Þannig getum við verið hluti af þeirri breytingu sem við sjáum, veitt vettvang fyrir stækkandi vegan samfélagi á Íslandi og boðið upp á grimmdarlausan mat og næs stemningu fyrir alla. Við vonum að við getum hvatt fólk til að kynna sér vegan lífsstíl þegar það sér hversu gott, auðvelt og skemmtilegt það getur verið,“ segja þremenningarnir en Veganæs verður staðsettur inn af Gauknum. Linnea hefur getið sér gott orð sem galdrakona í eldhúsinu og hefur meðal annars starfað á Vinyl og Gló.

„Við verðum staðsett inn af Gauknum sem að okkar mati er besti tónleikastaður bæjarins. Saman höfum við veganæsað barinn, svo nú getið þið notið vegan vína, bjóra, anda og kokteila. Ef við notum hann ekki allan í eldamenskuna þá bjóðum við auðvitað upp á Víking, okkar fyrsta val af vegan bjór á Íslandi,“ segir Linnea og deilir hér uppskrift af bjórdrifnum vegan uppskriftum.

Bjórdeigs smáborgarar í bjórbrauði með Stout BBQ sósu og IPA hrásalati 

“Bóndi” brauðbollur

  • 2 flöskur Bóndi
  • 1 bréf þurrger (12 gr)
  • 1 kg hveiti
  • 2 msk agave sýróp
  • 2 msk sjávarsalt

Leysið gerið upp í einni flösku af bjórnum í stórri skál, hrærið sýrópinu saman við og leggið til hliðar

Í annarri skál, blandið megninu af hveitinu við saltið, rólega bætið við bjórblöndunni auk seinni bjórsins, um leið og þið hrærið svo úr verði klístrað deig. Bætið við restinni af hveitinu eftir þörf þar til deigið verður þétt. Hnoðið í 5-7 mínútur (3-5 ef notast er við vél).

Leyfið deiginu af hefast undir röku handklæði á hlýjum stað í u.þ.b. 40 mínútur.

Losið um loftbólur með því að hnoða deigið lítillega. Mótið bollur, baguette eða hleif. Deigið ætti að duga í 8 nokkuð stórar bollur. Raðið á olíaborið eldfast fat eða mót. Hvílið í 40 mínútur á meðan ofninn hitnar.

Bakist við 220 gráður í 20-25 mínútur, fylgist vel með þeim eftir 18 mínútur. Bankið létt í þær, ef þær hljóma holar þá eru þær tilbúnar.

Steiktir smáborgarar í bjórdeigi
Smáborgarar

  • 2/3 flaska Bóndi
  • 1 kubbur af tófúi
  • 1/2 rifinn hvítlaukur
  • 2 msk soya-sósa
  • 2 msk agave sýróp
  • 1 msk fljótandi reykur (liquid smoke) - valfrjálst
  • 1 msk hrísgrjóna edik
  • 1 msk sesam olía
  • börkur og safi úr einni límónu

-Sneiðið tófúið nokkuð þykkt (gætuð náð 8 sneiðum úr kubb), frystið það yfir nótt og afþýðið svo fyrir matreiðslu. Þessi aðferð bætir áferðina og sér til þess að það drekkur marineringuna betur í sig. Einnig er hægt að pressa tófúið ef tími er knappur. Það er gert með því að vefja tófúinu létt í eldhúspappír, raða því flötu og leyfa einhverju þungu að liggja ofaná því í um 20 mínútur.

-Hrærið saman restinni af hráefnunum í krukku eða box, þekjið tófúið með blöndunni og leyfið að liggja í minnst eina klukkustund.

Bjórdeig

  • 1 flaska Víking Gylltur
  • 2,5 - 3 dl hveiti

-Hrærið saman hráefnunum, bætið við hveiti eftir þörf. Þykktin ætti að vera á við pönnukökudeig. 

Þurrblanda

  • 1 dl maísmjöl
  • 1 dl Panko brauðmylsna
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1 tsk þurr steinselja
  • Salt og pipar
  • Olía til steikingar

Blandið öllu á bakka eða djúpan disk, hagræðið kryddum eftir smekk.

Hitið olíu á pönnu eða í djúpsteikingarpotti.

Þekið tófúsneiðarnar í deiginu og veltið þeim svo upp úr þurrblöndunni.

Komið þeim varfærnislega fyrir á pönnunni, ekki of margar í einu. Steikið í u.þ.b. 1,5 mínútur á hvorri hlið.

Leyfið þeim að kólna á eldhúspappír.

Stout BBQ sósa

  • 1 flaska Víking Stout
  • 1 dl tómatsósa
  • 1/2 dl epla edik
  • 1/3 dl soya sósa
  • 1/2 dl púðursykur
  • 2 msk tómat purée
  • 3 msk Sriracha, eða önnur sterk sósa
  • 1/2 tsk reykt paprika
  • 1/2 tsk paprika
  • 1/2 rifinn hvítlaukur
  • 2 sm rifinn engifer
  • 2 msk maísmjöl blandað með 2 tsk af vatni
  • 1 msk ólífu olía
  • Salt og pipar

Hitið olíuna við miðlungs hita og steikið hvítlaukinn og engifer í nokkrar mínútur, hellið síðan bjórnum yfir. Bætið við restinni af hráefnunum. Bætið við kryddum af vild.

Að lokum bætið þið maísmjölinu saman við og náið upp rólegri suðu. Leyfið sósunni að þykkna á meðan þið hrærið rólega í nokkrar mínútur. Hella má sósunni í krukkur en hún ætti að geymast í kæli í allt að þrjár vikur.

Appelsínu hrásalat

  • 1/3 flaska Bóndi
  • 1/3 hvítkálshaus
  • 1/2 púrrulaukur
  • 3 gulrætur
  • 1 dl vegan mayones
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 msk sætt sinnep
  • 2 msk sykur
  • 1 msk epla edik
  • 1/2 tsk sellerí salt
  • 1 tsk sinnepsduft
  • Börkur, safi og saxað aldin af 1/2 appelsínu
  • 1 rifinn hvítlaukur
  • 1/2 rauður chili
  • 1/2 grænn chili

Hrærið saman bjór og mayonesi ásamt sinnepi, appelsínuberki, sykri, ediki og kryddum. Skerið hvítkálið og púrrulaukinn í þunna strimla, rífið niður gulræturnar.

Blandið öllu saman í skál.

Salatið bragðast jafnvel betur ef því er leyft að hvíla yfir nótt í kæli.

Samsetning:

  1. Skerið brauðbollurnar í tvennt
  2. Setjið veglega af hrásalatinu á neðri helming brauðbolluna, ofaná þá kemur smáborgari, eða tveir á þá er gott að setja súrar gúrkur.
  3. Hellið Stout BBQ sósunni yfir, og öðrum sósum ef þið svo kjósið.
  4. Lokið borgaranum með efri helmingi brauðbollunnar.
  5. Varla þarf að taka það fram ef þessi réttur fer virkilega vel með bjór! Skál og verði ykkur að góðu!
mbl.is/Veganæs
mbl.is/Veganæs
,„Að veg­an­væða er að taka fyr­ir mat sem er ekki …
,„Að veg­an­væða er að taka fyr­ir mat sem er ekki veg­an og gera hann að veg­an-mat. Vega­næs stend­ur fyr­ir næsta skref á sömu nót­um, að gera veg­an-fæði að veg­an-æði," segja þremenningarnir. Mynd/Veganæs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert