Segir konur vilja öðruvísi snakk

Kynjað snakk kemur í verslanir vestanhafs á næstunni ef marka …
Kynjað snakk kemur í verslanir vestanhafs á næstunni ef marka má fregnir. Jim Smart

Fregnir þess efnis að stórfyrirtækið PepsiCo, sem meðal annars á vörumerkið Doritos, ætli að setja sérstakt snakk á markaðinn „fyrir konur“ fara eins og eldur í sinu um heimsbyggðina.

Að sögn Indru Nooyi, forstjóra PepsiCo, eru konur ekki hrifnar af hávaðanum sem fylgir hefðbundnu snakki né því að sleikja á sér fingurna þegar snakk er borðað á almannafæri. Lausnin sé sérþróað snakk sem framleiðir minni hávaða og verður framleitt í pakkningum sem passa í veski.

Nooyi segir jafnframt að konur borði snakk öðruvísi en karlar. „Ungir karlmenn eru gjarnir á að sleikja á sér fingurna, sérstaklega þegar þeir borða mylsnur, því þeir vilja fá sem mest bragð.

„Ég held að konur myndu vilja gera slíkt hið sama en þær gera það þó ekki. Þær vilja ekki framleiða of mikinn hávaða á almannafæri og því síður sleikja á sér fingurna eða hella mylsnunni upp í sig úr pokanum.“

Lausnin sé því að hanna nýja gerð af snakki sem henti konum betur. Snakk sem bragðist jafn-vel en framleiði ekki jafnmikið hávaða og bragðið festist síður á fingrunum.

Ekki eru allir sammála Nooyi og lætin eru mikil á samfélagsmiðlum þar sem sitt sýnist hverjum en PepsiCo hefur víst í hyggju að framleiða töluvert af kynjuðu snakki á komandi misserum sem fyrirtækið segir í takt við breytta tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert