Sagðist hafa gefið frúnni límköku á Valentínusardaginn

Ryan Reynolds með límkökuna fögru.
Ryan Reynolds með límkökuna fögru. mbl.is/Instagram

Hjartagosinn Ryan Reynolds er mikill sprelligosi og birtir gjarnan mjög svo fyndnar myndir á Instagram og enn fyndnari athugasemdir á Twitter.

Eins og allir vita var Valentínusardeginum fagnað um heim allan (eða því sem næst) og var Reynolds þar ekki undanskilinn.

Bakaði hann köku handa eiginkonu sinni, Blake Lively, í tilefni dagsins og sagði að kremið væri lím þar sem hann væri ekki vísindamaður.

Hvað elsku Reynolds átti við með því skal ósagt látið en ósennilegt verður að teljast að um raunverulegt lím hafi verið að ræða enda er það allajafna fremur skaðlegt heilsu manna (og dýra).

Við leiðum því líkur að því að það hafi verið fremur klístrað og ætlum við að skjóta á að um dásemdar og hnausþykkt smjörkrem hafi verið að ræða sem hann hafi illa ráðið við þar sem það var of kalt. Hvort þessi kenning stenst nánari skoðun vitum við ekki en flissum í laumi yfir því hvað hann er nú rómantískur.

Ekki fylgir sögunni hver viðbrögðu eiginkonunnar voru en ætla má að hún hafi verið fremur kát.

I baked this cake for my wife. The icing is glue, ‘cause I’m not a scientist.

A post shared by Ryan Reynolds (@vancityreynolds) on Feb 14, 2018 at 11:41am PST

mbl.is