Sjö atriði sem þú ættir að forðast á morgnana

Kristinn Magnússon

Það er fátt meira óþolandi en að halda í góðri trú að maður sé að borða afskaplega hollt þegar svo er alls ekki. Matarvefurinn tók saman lista yfir fæðutegundir sem ansi margir gæða sér á í morgunsárið, haldandi að hér sé hollustan í fyrirrúmi.

Hér er tilgangurinn engan veginn að eyðileggja þá gleðistund sem morgunverðurinn getur verið en það getur líka verið svekkjandi að borða sinn venjulega morgunverði – án þess að gera sér grein fyrir hitaeiningamagninu sem hann inniheldur. Oftar en ekki er hægt að gera smávægilegar breytingar þannig að hér er ekki um neinn dómsdagslestur að ræða.

Ristað brauð: Hér er átt við hvítt og ljóst heilhveitibrauð. Reyndu alltaf að velja eins gróft brauð og kostur er. Það er ekki að ástæðulausu að allir þjálfarar og næringarfræðingar mæla  með því að brauð sé tekið út úr mataræðinu þar sem þess er kostur.

Þeytingur eða smoothie: Ávaxtaþeytingar eru mjög vinsælir en þeir geta verið varhugaverðir þar sem þeir innihalda oftar en ekki mikið af ávaxtasykri en lítið af próteini. Þú munt finna fljótt til svengdar og þetta er það sem kallast skammgóður vermir sem er alls ekki gott. Settu próteinduft saman við þeytinginn og þá finnurðu síðar til svengdar.

Morgunkorn: Hér erum við að tala um sykrað morgunkorn og því miður er staðreyndin sú að flest morgunkorn inniheldur stjarnfræðilega mikið magn af sykri. Lestu utan á pakkninguna og fullvissaðu þig um að þitt „bráðholla“ morgunkorn standi undir nafni.

Hafragrautur úr pakka: Þið kannist við þessa tegund. Maður þarf bara að hella heitu vatni út á og þá verður grauturinn dásamlega bragðgóður og frábær. Vondu fréttirnar eru þær að frábærheitin innihalda óheyrilegt magn af sykri þannig að til hvers að borða hafragraut ef hann er ekki hollur? Það er ekkert rökrétt við það.

Morgunverðarstykki: Slík stykki eru markaðssett fyrir fólk á ferðinni sem hefur ekki tíma til að borða og getur því gripið sér eitt svona þægindastykki. En Adam var ekki lengi í paradís og stykkin eru yfirleitt sneisafull af sykri.

Kaffi með sírópi: Þetta gæti komið mörgum á óvart en síróp inniheldur geigvænlegt magn af sykri og því er stórhættulegt að gæða sér á miklu magni af kaffi með miklu magni af sírópi!

Granóla: Því miður er það þannig að flest granóla sem fæst úti í búð inniheldur töluvert mikið magn af sykri. Svo mikið reyndar að oft er það sambærilegt sælgæti. Það er kannski fínt fyrir suma en alls ekki þá sem halda að þeir séu að borða hollt og gott fæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert