Skemmtilegasta veitingahús landsins

Kjartan Óli og Freyr.
Kjartan Óli og Freyr. Haraldur Jónasson/Hari

Borðhald má kalla farandveitingahús eða pop-up veitingahús. Mennirnir á bak við borðhald eru þeir Kjartan Óli Guðmundsson, matreiðslumaður og vöruhönnunarnemi, og Freyr Karel Branolte, matreiðslumaður í Hörpu.

„Borðhald virkar þannig að við semjum matseðla og útbúum viðburði sem við auglýsum svo á Facebook og fólk getur bókað sig á. Það sem er öðruvísi við þetta fyrirkomulag er að við getum haft kvöldin okkar allskonar og verið allstaðar. Við höfum verið með allt frá streetfood mat upp í ellefu rétta háklassa matseðla,“ segja þeir félagar aðspurðir hvað Borðhald sé.

„Hugmyndafræðin sem Borðhald heldur sig við er nýting hráefnis úr nærumhverfinu sem og árstíðarbundin matreiðsla. Við sækjum okkur hráefnið mikið í náttúru Íslands og erum oft mjög tilraunakenndir í því sem við berum á borð. Oftar en ekki fer mikil þróunarvinna í hvern rétt og við reynum að framreiða matinn á nýstárlegan hátt. Þar vinnum við með náttúruna og hefðir sem innblástur.

Náttúruvínin eru skemmtileg

„Við einbeitum okkur einnig að því að vinna með náttúruvín sem eru vín sem njóta síaukinna vinsælda meðal vínáhugafólks. Munurinn á þeim og hefðbundum vínum er að þau eru lífræn og án viðbætra sulfíta og gerjunarferlinu er ekki stýrt. Þannig geta komið mjög áhugaverðir og öðruvísi tónar í vínin. Þetta er í rauninni afturhvarf til þess hvernig vín voru gerð upprunalega.

„Það sem við reynum að ná fram á viðburðunum er að tengja saman vín, mat og fólk. Við vinnum þannig að við smökkum vínin fyrst og svo hugsum við upp mat sem passar vel með. Þannig reynum við að ná fram fullkomnu samspili milli víns og matar. Við höfum svo haft það þannig að fólk getur átt von á að setjast með allskonar fólki því fátt er skemmtilegra en að kynnast nýju fólki og eiga góða stund yfir góðum mat. Því hefur slagorðið sem við vinnum eftir verið að við tengjum saman vín, mat og fólk.

„Fyrir okkur er borðhald ákveðin leið til að hittast og gera eitthvað skemmtilegt og skapandi í góðra vina hópi. Þess vegna höfum við reynt að taka sem flesta með okkur í partíið, segja þeir félagar sem segjast hafa fengið ómetanlega hjálp frá vinum og félögum við að láta viðburði Borðhalds verða að veruleika.

Ostur verður allsráðandi

„Kveikjan að samstarfinu við Búrið var að Eirný sem á og rekur Búrið hafði komið á einn viðburð sem við héldum og var bara nokkuð hrifin af því sem við vorum að gera. Hún hafði á efri hæðinni í búðinni laust pláss sem var tilvalið fyrir skemmtilegan viðburð. Nánast sama dag og við Eirný fengum þessa hugmynd hafði Arnar, sem rekur vínfyrirtækið Vínbóndann, samband og spurði hvort við værum til í samstarf þannig okkur fannst tilvalið að leiða þessa þrjá aðila saman í að gera eitthvað sniðugt og skemmtilegt.

Næsti viðburður strax á sunnudaginn

Síðan var ákveðið að hafa kvöldið þann 22. febrúar og þar sem þetta er í Búrinu var við hæfi að vera með ostaþema þannig að við munum troða osti einhvers staðar í alla rétti.

Aðspurðir hvort matgæðingar geti búist við fleiri svona viðburðum eða hvort þessi tiltekni viðburður verði gerður reglulegur segjast þeir ekki vita það en næsti viðburður þeirra sé strax á sunnudaginn 25. febrúar þar sem boðið verði upp á sunnudags-miðdegismat þar sem fólk geti nærst fram eftir degi á dýrindis mat og náttúruvínum í framúrskarandi félagsskap.

Hægt er að bóka sæti á viðburðina á Facebook-síðu Borðhalds.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert