Stellið sem Kolbrún Pálína elskar

Kolbrún Pálína er mikill fagurkeri.
Kolbrún Pálína er mikill fagurkeri. Eggert Jóhannesson

Fagurkerinn Kolbrún Pálína Helgadóttir heldur úti fallegu heimili og elskar að dekka borð og hafa huggulegt í kringum sig. Þrátt fyrir að fara iðulega út fyrir ramman þegar kemur að framsetningu og stíl þá kolféll hún fyrir klassísku matarstelli.

„Fyrir nokkrum árum gerði ég tilraun til þess að byrja að safna í stell en áttaði mig fljótlega á því að ég hef einfaldega allt of gaman að því að blanda saman hinu og þessu og leika mér svolítið þegar kemur að því að dekka fallegt borð svo ég var ekki tilbúin að festa mig við eitt stell þar sem ég skipti um skoðun og liti eftir árstíðunum. Hinsvegar hef ég stolist til að skoða og láta mig dreyma um Royal Copenhagen-stellið í mörg ár sem er auðvitað guðdómlegt,“ segir Kolbrún.

„Í einni ferð minni til Kaupmannahafnar fjárfesti ég svo í fyrstu kaffibollunum eftir miklar vangaveltur um það hvort ég ætti að fara í klassíska bláa litinn eða svarta. Það var eitthvað í mér sem fannst ég verða að halda tryggð við klassíkina í stelli sem þessu svo blár varð það. Síðan þá hef ég eignast nokkra einstaklega fallega hluti úr línunni og ég verð að viðurkenna að þegar maður er farinn að safna jafn fallegum hlutum og þessum þá fylgir því óneitandleg töluverð gleði að eignast hvern og einn. Og það er einmitt það sem mér finnst svo spennandi við það að safna sér einhverju sem mann virkilega langar í. Stundum lít ég inn til vina minna í Kúnígúnd og læt mig dreyma um næsta hlut og raða saman í huganum. Það sem mér finnst svo ofsalega heillandi við Royal Copenhagen er að stellið á orðið gríðarlega langa sögu en aðlagast engu að síður nútímanum með nýjum og spennandi hlutum. Það eru nokkrar línur innan stellsins sem gerir manni kleift að blanda saman hlutum og skapa þá útkomu sem að maður vill.“

„Ég ákvað að byrja í bollum og aukahlutum og hef verið mjög dugleg að nota þá og blanda við það sem ég á í skápunum nú þegar. Royal passar einhvern veginn við allt og allt passar við Roayal. Einnig held ég áfram að leyfa mér að fara ekki eftir neinum reglum og nota bolla undir sósur, skálar undir blóm, diska undir kerti og þess háttar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert