Mörg þúsund pokar komnir í umferð

Endurvinnsla Pokarnir eru saumaðir úr afgangsefnum eða því sem fellur …
Endurvinnsla Pokarnir eru saumaðir úr afgangsefnum eða því sem fellur til.
Sá erlendi siður að bjóða upp á skiptipoka í verslunum hefur loksins skotið rótum hér á landi. Fjöldi verslana víða um land bjóða upp á þetta, samkvæmt heimildum Matarvefsins; Melabúðin í Reykjavík, Nettó á Húsavík, Kaupfélagið í Varmahlíð, verslanir á Tálknafirði og Kjörbúðin á Blönduósi svo fátt eitt sé nefnt. Í öllum tilfellum er um utanaðkomandi framtak að ræða. Í Melabúðinni er það Pokastöðin sem stendur að baki verkefninu en það eru fjórar stúlkur í 10. bekk í Hagaskóla sem eiga heiðurinn af því.

Á Húsavík er það Miðjan, sem er dagþjónusta fyrir fatlaða, sem reið á vaðið og hefur það verkefni gengið vonum framar og mælst vel fyrir hjá heimamönnum. Verkefnið kalla þau Boomerang Bags en pokarnir þykja sérlega skrautlegir og flottir. Á Blönduósi er það svo hópur áhugafólks um plastlaust samfélag sem tók sig til og nú eru yfir 800 pokar komnir í umferð hjá þeim. Í Skagafirði er það hópur sem kallar sig Pokamiðstöðin og svo mætti lengi telja. Frábært framtak þar sem landsbyggðin er til fyrirmyndar. 

Skiptipokarnir virka þannig að viðskiptavinir geta tekið poka sér að kostnaðarlausu undir matvöru. Eina kvöðin er að skila þarf pokunum þegar kostur gefst. Auðvitað má nota pokana aftur en bannað er að eigna sér þá eða nýta undir annað.

Dregur þetta mikið úr notkun plastpoka og er í alla staði hið þarfasta framtak enda hafa vitökurnar verið frábærar. Að sögn Guðnýjar Karlsdóttur sem starfar í Nettó á Húsavík hafa pokarnir verið í boði frá því í október. Fyrst hafi fólk ekki almennilega vitað hvernig þetta virkaði og oft gleymt að skila en starfsfólk hafi verið duglegt við að leiðbeina fólki og nú væri þetta að ganga afskaplega vel og Húsvíkingar væru afskaplega ánægðir með framtakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert