Vandræðalega góð kjúklingasúpa

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

Kjúklingasúpur eru í uppáhaldi hjá mörgum enda einstaklega góðar - séu þær rétt gerðar - og svo þægilegar og yfirleitt hollar. Að því sögðu þá kynnum við til leiks þessa helgarstjörnu sem kemur úr smiðju Svövu Gunnars á Ljúfmeti.is. Súpan er tælensk sem í miklu uppáhaldi hér á landi.

Súpan er matarmikil og bráðholl. Fullt af hráefni en samt nokkuð borðliggjandi hvernig á að gera hana og því ætti hún að vera á hvers manns færi.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi

  • 2 msk ólífuolía
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 laukur, hakkaður
  • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
  • 3 msk rautt karrýmauk
  • 1 msk ferskt rifið engifer
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 1 líter vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk fiskisósa
  • 1 tsk mulið kaffir lime
  • 2 msk púðursykur
  • 1/2 msk basilika
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 rauð paprika
  • 2-3 dl blómkál
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 100 g hrísgrjónanúðlur
  • 1- 1,5 tsk sriracha
  • kóriander
  • lime
  • salthnetur

Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.

Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.

Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert