Veist þú hvað bjórflokkarnir eru margir?

Hvað er bjór? Er bjór það sama og lager og hver er munurinn á lager og stout? Að skilja bjórfræði til fullnustu er töluverð kúnst og því er alltaf þakklátt þegar sérfræðingarnir varpa ljósi á staðreyndir.

Það hafa sérfræðingar Vínbúðarinnar verið iðnir við og hér greina þeir bjór niður fyrir okkur í sex flokka.

Ljós lager: Ljós lager er sá bjór sem flestum flýgur í hug þegar minnst er á bjór. Hann er yfirleitt ljós eða gullinn á lit og flestar tegundir eru bragðmildar. Algengast er að vínandastyrkur sé frá 4,5% til 5,6% en til eru tegundir með minni styrkleika eða meiri. Bragð af lager einkennist af lítilli beiskju en til eru tegundir þar sem hún er nokkuð afgerandi. Til þessa flokks má einnig telja ljós-millidökka “classic” bjóra..

Dökkur lager: Dökkur lager hefur yfirleitt meiri bragðfyllingu en ljós lager vegna þess að kornið er meira ristað. Til þessa flokks heyra m.a. flestir jólabjórar, sem eru oft kryddaðir og dálítið sætir. Stundum eru jólabjórarnir einnig með meiri vínandastyrk en algengast er í þessum flokki.

Öl: Öl er yfirgerjaður bjór. Gerjunin veldur því að bjórinn fær mismunandi mikil sætueinkenni, allt eftir því hve hátt hlutfall af byggi er notað í bjórinn, og eins eftir því hvaða tegund gers er notuð. Bretar og Belgar eiga ríka hefð fyrir bruggun öls og má finna hundruð tegunda hjá þessum þjóðum.

Stout og porter: Stout og porter eru mjög dökkir bjórar, þar sem maltið er mikið ristað. Þeir hafa oftast sterkan ristaðan keim og gjarnan lakkrís- eða kaffitóna. Þeir spanna vítt svið, allt frá írskum hversdagsbjór til kröftugra og bragðmikilla tegunda með háum vínandastyrk.

Hveitibjór: Í hveitibjór er notað hveitikorn í bland við aðrar korntegundir. Heimalönd hveitibjórs eru Belgia og Þýskaland. Belgíski stíllinn er ljós og léttur með sítrónu- og bananatónum, en hveitibjór í þýskum stíl inniheldur a.m.k. 50% hveiti og getur verið ljós eða dökkur. Hann er heldur þyngri en sá belgíski.

Ávaxta- og kryddbjór: Í flokknum ávaxta- og kryddbjór er safn ólíkra tegunda sem eiga það sameiginlegt að ávextir eða krydd er ríkjandi í bragði. Þessir bjórar hafa yfirleitt litla beiskju og ávaxtabjórar geta verið ferskir og sýruríkir.

Greinina í heild sinni ásamt myndskýringum má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert