Guðdómlegur súrdeigsbrauðréttur með kjúklingi

Matarmikill brauðréttur með kjúklingi, sveppum og sólþurrkuðum tómötum.
Matarmikill brauðréttur með kjúklingi, sveppum og sólþurrkuðum tómötum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðir brauðréttir fara aldrei úr tísku og þeim eru ávallt gerð góð skil í veislum. Hér hittir súrdeigsbrauð safaríkan kjúkling og ítalska strauma. Það er því ekki að undra að mótherji minn í brauðréttaeinvíginu hafi snöggfölnað þegar þessi dásemd var reidd fram. Ekki væri verra að toppa réttinn með klettasalati og smá tómötum liggi sérlega lekkert á manni.

1 súrdeigsbrauð
2 kjúklingabringur (um 350 g)
1 msk. kjúklingakrydd
1 msk. olía
200 g rjómaostur
1 dl sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
100 g sveppir, saxaðir
1/2 dl rjómi
3 msk. rautt pestó
1/2 tsk. svartur pipar
1 msk. ítölsk kryddblanda
1 dl fersk basilíka, söxuð
100 g rifinn ostur

Setjið kjúklingabringurnar í eldfast mót. Hellið olíunni yfir og kryddið með kjúklingakryddi. Gætið þess að olía sé undir bringunum svo þær festist ekki við botninn. Eldið bringurnar í ofni á 180 gráðum í 20-25 mínútur. Skerið í bringurnar til að sjá hvort þær eru tilbúnar.

Rífið innvolsið úr brauðinu og þekið botninn á meðalstóru eldföstu móti. 

Steikið sveppina upp úr örlítilli olíu. Hellið umframvatni af.

Setjið rjómaost, rjóma, ítölsku kryddblönduna, 3 msk. rautt pestó og sólþurrkaða tómata í pott. Hitið við vægan hita uns allt hefur samlagast. Bætið þá svörtum pipar, sveppum og basilíku við.

Rífið kjúklinginn niður með tveimur göfflum og dreifið yfir brauðið.

Hellið sósunni yfir. Toppið með osti og bakið í ofni á 170 gráðum í 20 mínútur. Gott er að setja grillið á síðustu 5 mínúturnar. 

Virkilega góður brauðréttur þar sem súrdeigsbrauðið gerir gott mót.
Virkilega góður brauðréttur þar sem súrdeigsbrauðið gerir gott mót. mbl.is/ Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert