Bakað fyrir húsmæðraorlof

Ekkert að þessum elskum.
Ekkert að þessum elskum. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Þegar stefnan er tekin á húsmæðraorlof er nauðsynlegt að undirbúa sig vel. Þá er oftar en ekki tilefni til að baka forláta bollakökur eins og matarbloggarinn Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is gerði.

Hún er einmitt á leiðinni í slíkt orlof og segir að það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að baka þessar kökur sem tengja hana svo rækilega við áfangastaðinn. Kökurnar heita Neopolitan Cupcakes og eru að sögn Berglindar algjörlega frábærar.

Súkkulaðibollakökur

Uppskriftin gefur um 20-24 bollakökur. Ég notaðist við 1M stút frá Wilton og sprautaði fyrst hvítu smjörkremi á kökuna og því næst bleika jarðarberjasmjörkreminu. Marglitu kökuskrauti er stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.

  • 320 gr. hveiti
  • 85 gr. bökunarkakó
  • 2 ½ tsk. lyftiduft
  • 1 ½ tsk. matarsódi
  • ¾ tsk. salt
  • 3 egg
  • 300 ml bolli mjólk
  • 110 ml matarolía
  • 1 msk. vanilludropar
  • 380 gr. sykur
  • 200 ml sjóðandi vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn 175°C.
  2. Sigtið saman hveiti, kakó, lyftiduft, matarsóda og salt og leggið til hliðar.
  3. Blandið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman í hrærivélinni.
  4. Bætið þá sykrinum og öllum þurrefnunum saman við. Hrærið á lágum hraða til að byrja með en síðan á meðalhraða í um tvær mínútur eða þar til deigið er orðið slétt og fallegt.
  5. Blandið að lokum sjóðandi vatninu varlega saman við deigið með sleif þar til það verður slétt að nýju. Deigið á að vera þunnt.
  6. Leyfið deiginu að hvíla í 15 mínútur og hrærið þá aðeins upp í því að nýju.
  7. Fyllið ¾ hluta af bollakökuformunum með deigi og bakið þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu (ekki blautu deigi) eða í um 20 mínútur.
  8. Kælið bollakökurnar og útbúið kremið á meðan.

Vanillu- og jarðaberja smjörkrem

  • 500 gr. smjör við stofuhita
  • 900 gr. flórsykur (sigtaður)
  • 2 tsk. vanilludropar
  • ¼ tsk. salt
  • 200 gr. fersk maukuð jarðarber (eða jarðarberjasulta)
  • Marglitt kökuskraut
  • Niðursoðin kirsuber með stönglum

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
  2. Bætið flórsykrinum saman við í litlum skömmtum og blandið á lágum hraða.
  3. Að lokum fara vanilludroparnir og saltið saman við blönduna og kremið þeytt í nokkrar mínútur þar til létt og ljóst og skafið nokkrum sinnum niður á milli.
  4. Takið rúmlega 1/3 af vanillukreminu til hliðar og setjið jarðarberjamaukið saman við tæplega 2/3 af kreminu og blandið vel.
  5. Ég notaði stút 1M frá Wilton og byrjaði á því að sprauta jarðarberjakreminu í rúman hring og síðan vanillukreminu þar ofan á. Þá er kökuskrauti stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Bókin góða sem uppskriftirnar voru fengnar úr.
Bókin góða sem uppskriftirnar voru fengnar úr. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert