Kokka hlýtur hin virtu GIA verðlaun

Verslunin Kokka er glæsileg og hefur nú hlotið virt alþjóðleg …
Verslunin Kokka er glæsileg og hefur nú hlotið virt alþjóðleg verðlaun. mbl.is/Kokka
Kokka hefur hlotið hin virtu GIA verðlaun, Alþjóðlegu nýsköpunarverðlaunin (Global Innovation Awards), í flokki framúrskarandi verslana.
Þetta í fyrsta sinn sem íslensk verslun hlýtur þessa viðurkenningu og er Kokka í flokki með vinningshöfum á borð við Harrods í Bretlandi og sænsku vefverslunina Royaldesign.se. Alls hlutu 27 verslanir í 26 löndum verðlaunin við mikla viðhöfn í Chicago um helgina. Það eru Alþjóðlegu húsbúnaðarsamtökin (International Housewares Association) sem standa árlega að GIA verðlaununum í sambandi við vörusýningu sína þar í borg. Í fréttatilkynningu segir að sýningin er ein sú stærsta í geiranum.
Inntökuferlið er strangt og stóð í um hálft ár. Tekið er tillit til mismunandi þátta s.s. skipulags og uppsetningar verslunarinnar, nýsköpunar og markaðsmála, þjónustu og þjálfunar starfsmanna. „Ritstjóri tímaritsins Tableware International hafði samband við okkur en þau sjá um að tilnefna vinningshafa frá nokkrum Evrópulöndum, m.a. Íslandi og Noregi. Okkur þótti gaman að taka þátt enda fer maður í gegn um naflaskoðun þegar verið er að rýna í reksturinn með þessum hætti. Svo kom að sjálfsögðu mjög skemmtilega á óvart að vinna til verðlaunanna!“ segir Guðrún Jóhannesdóttir, stofnandi Kokku. Hún er ásamt systrum sínum, Magnýju og Auði Jóhannesdætrum, stödd í Chicago til að taka við verðlaununum. „Það má segja að við höfum náð ansi langt síðan ég plataði þær út í verslunarrekstur fyrir sautján árum!“
Kokka hóf starfsemi í apríl 2001 í litlu húsnæði á Ingólfsstræti þar sem Guðrún stóð vaktina með vandlega valdar eldhúsvörur. Búðin flutti á Laugaveg 47 ári seinna og hafa þær systur einnig rekið vefverslun með eldhúsvörur frá árinu 2004 en www.kokka.is var ein
fyrsta vefverslunin á íslenskum markaði. Aðspurð segist Guðrún hafa ýmislegt spennandi í bígerð fyrir árið 2018. „Hver veit nema við stækkum í þriðja sinn?“ segir hún sposk. Hún hefur þó engin áform um að færa sig úr miðborginni, að netheimum frátöldum.
GIA verðlaunin eru þekkt um allan heim og eru stærsta viðurkenning sem húsbúnaðarbúð getur hlotið, eins konar Michelinstjarna húsbúnaðargeirans. „Þetta kemur manni á kortið úti í heimi.“ segir Guðrún en sjálf segist hún fylgjast með verðlaununum og hafa þau í huga þegar hún ferðast erlendis. „Síðast vann til dæmis alveg frábær lítil búð í London, The Borough Kitchen, sem ég dreif mig auðvitað að heimsækja þegar ég millilenti þar í fyrra. Núna er þetta uppáhalds búðin mín í London!“ segir hún og bætir við að sölumenn alls staðar að séu strax byrjaðir að hafa samband í von um að koma vörumerkjum sínum fyrir hjá hinum fyrsta íslenska
handhafa GIA verðlaunanna.
Auður, Guðrún og Magný Jóhannesdætur eiga og reka saman verslunina …
Auður, Guðrún og Magný Jóhannesdætur eiga og reka saman verslunina Kokku. Hér sjást þær taka við verðlaununum. mbl.is/aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert