Eldsnöggt taco ofurkroppsins

Anna Eiríks deilir hér fljótlegri og djúsí taco-uppskrift.
Anna Eiríks deilir hér fljótlegri og djúsí taco-uppskrift. mbl.is/samsett

Anna Eiríks, ofurþjálfari hjá Hreyfingu, heldur úti fjarþjálfunarsíðunni Annaeiriks.is en þar er einnig að finna fljótlegar og hollar uppskriftir.

Nú þegar styttist í áthátíðina sem páskarnir eru minnir Anna á að leggja ekki hreyfinguna á hilluna þótt gert sé vel við sig í mat. Bendir Anna þá meðal annars á Fit á ferð, sjá hér, sem æfingaplan til að grípa í um páskana þegar fólk er á ferð og flugi en það hentar sérstaklega vel þar sem engin áhöld eru notuð og samanstendur af fimm stuttum æfingalotum sem hægt er að setja saman að vild. 

Þar að auki minnir Anna á að með því að auka hlutfall grænmetis í kvöldverðinum er stór sigur unninn! Hér kemur ein af hennar uppáhaldsuppskriftum. 

„Börnin mín eru ekki mjög hrifin af steiktu grænmeti en eru dugleg að borða ferskt grænmeti með mat en þá sker ég niður lárperur, tómata, gúrku, papriku og ber fram með spínati sem þau bæta í taco-skeljarnar. Okkur hjónum finnst gott að steikja sveppi, papriku og smá lauk og blanda saman við kjúklinginn áður en tacoið er bakað í ofni,“ segir Anna og mælir með mexíkóveislu í kvöld.

„Þessi réttur sló heldur betur í gegn á mínu heimili. Hann er fljótlegur og rosalega góður. Við erum svo hrifin af mexíkóskum mat og finnst gaman að breyta til. Það kemur mjög vel út að baka þennan rétt í ofni en að sjálfsögðu má borða hann án þess að setja hann í ofn og einnig að setja hakk í staðinn fyrir kjúkling, það kemur líka vel út.“

Ofnbakað kjúklinga-taco
Fyrir: 4-6

1 bakki kjúklingabringur, sirka 600 g
1 poki enchilada- eða taco-krydd (ég notaði enchilada)
1 pakki taco-skeljar
3 msk. rjómaostur
1 rauð paprika 
1 laukur 
8 sveppir
150 g rifinn ostur
Ferskt kóríander til að strá yfir, má sleppa 

Aðferð:

Steikið kjúklinginn í litlum bitum og kryddið með taco- eða enchilada-kryddi og bætið 3 msk. af rjómaosti út á pönnuna þegar kjúklingurinn er tilbúinn. Ef þið viljið þá er mjög gott að steikja lauk, papriku og sveppi og bæta saman við kjúklinginn en þessu má sleppa.

Hellið blöndunni í taco-skeljar og raðið þeim í eldfast mót, stráið rifnum osti yfir og bakið í ofni í 10-12 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með fersku salati og guacamole.

 

Girnilegt og fljótlegt.
Girnilegt og fljótlegt. mbl.is/annaeiriks.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert