Svona býrðu til fermingartertu

Systurnar í Allt í köku útbjuggu þessa glæsilegu fermingartertu.
Systurnar í Allt í köku útbjuggu þessa glæsilegu fermingartertu.
Dreymir þig um að baka fermingarköku fyrir barnið þitt en kannt ekki réttu trixin? Systurnar Kristín Eik og Katrín Ösp Gústafsdætur reka verslunina Allt í köku. Hér gefa þær lesendum uppskrift að súkkulaðiköku fyrir 25 manns. 

150 g smjör
150 g smjörlíki
320 g sykur
200 g púðursykur
4 egg
1 msk. vanilluextrakt
250 ml sterkt kaffi
140 g sýrður rjómi 18%
85 g kakó
340 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi

1. Hitið ofninn í 160 gráður á undir- og yfirhita.

2. Setjið bökunarpappír í botninn á þremur 23 cm formum og penslið með matarolíu.

3. Hellið upp á 250 ml af sterku kaffi og blandið sýrðum rjóma og kakói saman við. Leyfið að kólna aðeins.

4. Þeytið smjör og smjörlíki á miklum hraða þar til smjörblandan verður ljós og loftmikil.

5. Bætið sykri og púðursykri saman við og þeytið vel saman.

6. Bætið við einu og einu eggi í senn og þeytið vel á milli.

7. Bætið vanilluextrakt út í og blandið vel. Við mælum með Madagaskar vanillu, hún gerir gæfumuninn.

8. Blandið hveiti, lyftidufti og matarsóda og hafið sigti við höndina.

9. Hellið helmingi kaffiblöndunnar í deigið og þeytið vel.

10. Sigtið helming hveitiblöndunnar út í deigið og skafið skálina með sleif til þess að allt blandist vel.

11. Hellið restinni af kaffiblöndunni út í og hrærið vel.

12. Sigtið restina af hveitiblöndunni út í skálina og passið að deigið verði kekkjalaust.

13. Hellið deiginu í mótin og sléttið úr því með litlum spaða.

14. Bakið í 35 mínútur, eða þar til bökunarnál kemur hrein úr kökunni miðri. Ef bakað er á tveimur hæðum þarf kakan af neðri grind að færast upp þegar hinar eru teknar út og bakast í 8 mínútur í viðbót.

15. Kælið í nokkrar mínútur í mótinu og færið botnana síðan á kæligrindur. Látið botnana snúa rétt á grindunum með bökunarpappír undir. Annars er hætt við að kakan festist við grindina.

Vanillusmjörkrem Allt í köku

215 g smjör
215 g smjörlíki
520 g flórsykur
1½ tsk. vanilluextrakt

Fyrir súkkulaðismjörkrem, bætið kaffi og kakói saman við vanillusmjörkremið.

2½ tsk. sterkt kaffi
35 g kakó

1. Þeytið smjör og smjörlíki á miklum hraða þar til það verður mjög ljóst og loftmikið.

2. Bætið flórsykri saman við og þeytið á miklum hraða í nokkrar mínútur. Ef þið þeytið á litlum hraða verður smjörkremið linara og erfiðara að láta það standa vel þegar því er sprautað á kökuna.

3. Setjið vanilluextrakt saman við og þeytið í nokkrar mínútur í viðbót. Ef þið ætlið að gera súkkulaðismjörkrem, bætið kaffi og kakói saman við með vanillunni.

4. Ef þið viljið fá alveg slétt krem án lofts er gott að gera kremið deginum áður og geyma í kæli yfir nótt. Þegar það er þeytt upp daginn eftir verður kremið stíft og loftlaust. Þessa aðferð er gott að nota þegar þið ætlið að hjúpa kökuna með kremi, þ.e.a.s. ef þið ætlið ekki að setja sykurmassa yfir, og til að fá sléttari áferð á kremið þegar því er sprautað.

Súkkulaðikakan er best ef hún er sett saman deginum áður en hún er borin fram. Þá nær kremið og kakan að samlagast og kakan verður þéttari og betri. Kakan geymist í allt að 12 daga í kæli og það má frysta hana, með kremi eða án.

Fermingarkakan:

5 botnar með súkkulaðismjörkremi á milli.
Hjúpuð með vanillusmjörkremi og sykurmassa.

Smjörkrem:

1. Setjið smjörkremið á milli botna og hjúpið kökuna með kremi. Það er gott að nota lítinn spaða til að dreifa úr kreminu. Setjið mikið af kremi á kökuna og skafið umframkremið í burtu með sköfu. Sléttið toppinn með stórum spaða.

2. Ef þið viljið hvíta eða litríka súkkulaðiköku með súkkulaðismjörkremi getið þið annað hvort hjúpað kökuna með sykurmassa eða sett auka lag af smjörkremi yfir kökuna. Sykurmassann er best að setja á kökuna strax eftir að smjörkremið er komið á. Ef kakan er kæld áður en massinn er settur á sjást allar misfellur í kreminu í gegnum massann. Þá þarf kremið að vera alveg slétt undir og það þarf einnig að pensla kökuna með vatni svo sykurmassinn límist við. Þegar auka lag af smjörkremi er sett á þarf hins vegar að kæla kökuna vel áður en það er gert. Annars blandast kremið á kökunni við litinn sem settur er yfir.

mbl.is

Massi:

1. Hafið öll nauðsynleg áhöld við höndina; hanska, sykurmassa, kartöflumjöl, stórt kefli, sléttara og pítsuskera.

2. Hnoðið massann vel og stráið kartöflumjöli yfir borðið.

3. Fletjið massann út.

4. Leggið massann yfir kökuna og sléttið úr honum.

5. Skerið umfram-massa í burtu.

Skraut:

1. Blúndurnar eru búnar til með Flexi-Ice. Blandið duftinu saman við vatn samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Litið blönduna ef þess er óskað. Dreifið yfir silíkonmotturnar og skafið toppinn. Bakið við 70 gráður í 20-30 mínútur. Losið af mottunum. Úðið létt yfir með gylltum perlumatarlit eða penslið gylltu perludufti yfir. Búið til blóm úr litlu blúndunum.

2. Krossinn, perlurnar og keðjan eru gerð úr skreytingamassa. Þrýstið massanum ofan í mótið og skerið umfram-massa í burtu. Frystið í 30-60 mínútur ef massinn kemur ekki auðveldlega úr mótinu. Úðið krossinn með gylltum perlumatarlit eða málið með gylltu perludufti blönduðu alkóhóli.

3. Búið til rósir úr skreytingamassa. Það er líka hægt að kaupa tilbúin blóm. Málið kantana með gylltri málningu.

4. Límið skrautið á kökuna og festið rósirnar með tannstöngli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert