„Rolls Royce páskaeggjanna“

Álitsgjöfum Matarvefsins var tíðrætt um bragðgæði og lýsingarorðin voru fremur skemmtileg eins og sjá má í fyrirsögn fréttarinnar. Ljóst er að páskaeggja unnendur fá mikið fyrir sinn snúð í ár enda úrvalið frábært. Hér erum við að taka fyrir svokölluð Nammi egg og listinn er glæsilegur.

Hér skal skýrt tekið fram að hér að neðan er röðunin handa­hófs­kennd og að hér er um að ræða álit sér­legra álits­gjafa Mat­ar­vefs­ins á páska­eggj­un­um í ár. Von­andi er út­tekt­in leiðbein­andi og hjálp­ar ykk­ur í leit­inni að upp­á­halds egg­inu ykk­ar.

Kropp egg – Nói Síríus

Hér höfðu álitsgjafar oftar en ekki á orði að súkkulaðibragðið væri ljúffengt og gott og eggið væri svona eitt af þessum „öruggu.” Aðspurðir um útskýringu á þessu var svarið: „Í þessum flókna heimi páskaeggja þar sem valkvíðinn er allsráðandi og heil deild hjá Facebook greinir mann eftir því hvaða egg maður kaupir þá er Kroppið öruggt. Það segir ekkert annað um mann en að hér sé á ferðinni smekkmaður sem er nokkuð íhaldssamur en þó gefinn fyrir vandað flipp.”

Djúpuegg – Freyja

Þetta egg vakti eiginlega meiri hrifningu meðal álitsgjafa heldur en systuregg þess með piparduftinu sem gefur kannski vísbendingar um að bragðlaukar landsmanna séu að róast eftir pipar-ofviðrið sem hefur geysað

Ævintýraegg – Freyja

Krakkaegg sem bragð er af. Skemmtilega flippað með sniðugum fígúrum til skreygtinga. Það eru ábyggilega margir barnungarnir sem fá svona egg.

Síríus rjómasúkkulaði með saltlakkrísflögum og sjávarsalti – Nói Síríus

Þetta egg var umdeilt. Sumir héldu ekki vatni af hrifningu á meðan aðrir formæltu því og sögðu of saltað. Þetta sýnir hvað einstaklingsmatið er misjafnt og má leiða af þessu að eggið sé draumaegg þeirra sem elska lakkrís og salt.

Karmellupáskaegg með íslensku sjávarsalti – Nói Síríus

Þetta egg ætti eiginlega að vera í „fína” flokknum því það er svo sjúklega lekkert. Karmellan í bland við sjávarsaltið eru frábært dúó og einn álitsgjafanna gekk svo langt að kalla eggið „Rolls Royce páskaeggjanna.”

Hraunegg – Góa

Það supu margir álitsgjafar hveljur af hrifningu yfir þessu eggi og rugluðu því saman við Ríseggið. „Mjög gott samspil á milli hríss og súkkulaðis.” Rétt eins og hraunið hefur alltaf átt sér traustan stað í þjóðarsálinni er ljóst að þetta egg er eitt af best heppnuðu eggjunum.

Rísegg með saltkarmellubragði – Freyja

Þetta egg kom álitsgjöfunum verulega á óvart á einstaklega jákvæðan hátt. Margir höfðu á orði að þetta væri besta eggi og væri eiginlega bara „rugl” gott eins og einn orðaði það.

Rísegg með rískúlum – Freyja

Nokkrir álitsgjafar rugluðu rísegginu saman við hrauneggið og öfugt. Eggin eru sambærileg en þegar þau eru smökkuð hlið við hlið er munurinn þó augljós – þeim sem þekkja muninn á þessum tveimur súkkulaðitegundum. Ríseggið er orðið klassískt – eins og súkkulaðið og mjög öruggt val hjá öllum rísunnendum.

Trítlaegg – Nói Síríus

Öruggt val fyrir yngstu kynslóðina. Allir elska trítla og trítlarnir elska alla. Séu menn á sælgætiseggjalínunni á annað borð þá er þetta egg algjörlega málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert