Besta leiðin til að losna við ávaxtaflugur

Þessi litla krúttsprengja elskar eplaedik og það kann að verða ...
Þessi litla krúttsprengja elskar eplaedik og það kann að verða henni að falli.

Flestir kannast við hinar hvimleiðu ávaxtaflugur sem virðast birtast eins og skrattinn úr sauðarleggnum við ólíklegustu tilefni. Það getur reynst þrautin þyngri að losna við þær og oftar en ekki gefst fólk upp og selur íbúðina eða skiptir um eldhúsinnréttingu.

En að öllu gamni slepptu eru þær hvimleiðir skrattakollar og Matarvefurinn er búinn að leggja sitt af mörkum til að rannsaka hvernig best sé að losna við þær.

Sama hvar okkur bar niður í rannsóknum okkar var orðið eplaedik efst á blaði. Okkur telst því til að þrjár aðferðir séu vinsælastar en þær eru þessar:

1. Eplaedik í glas: Hér er eplaedikinu hellt í glas og plastfilma sett yfir. Síðan er plastfilman götuð með tannstönglum eða einhverju oddmjóu og látin standa. Flugurnar laðast eins og mý að mykjuskán að eplaedikinu og láta lífið í undursamlegu edikbaði.

2. Eplaedik og banani: Hér var eplaediki hellt í krukku og biti af banana settur út í. Síðan var pappír tekinn og búin til trekt úr honum og sett ofan í krukkuna þannig að flugurnar áttu nokkur greiða leið niður en alls ekki upp.

3. Eplaedik og uppþvottalögur: Þetta er eina aðferðin sem fól ekki í sér einhvers konar gildrugerð. Hér er sagt nóg að setja eplaedik í skál og uppþvottalög saman við. Þetta eigi að duga til að lokka flugurnar og drepa.

Gangi ykkur vel!

mbl.is