Parmesan-risottó með rækjum

mbl.is/The Kitchn

Risottó er í miklu uppáhaldi hjá mörgum enda með afbrigðum ljúffengur réttur. Hér er líka farið nokkuð gaumgæfilega yfir aðferðina þannig að hún ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Þið ráðið því hvort þið notið rækjur eða eitthvað allt annað... það er algjörlega undir ykkur komið.

Parmesan-risottó með rækjum

  • 450 g risarækjur
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1/2 tsk. paprikukrydd
  • Sjávarsalt
  • Ferskur svartur pipar
  • 2 lítrar kjúklingasoð
  • 2 msk. smjör, 1 laukur, fínt saxaður
  • 4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
  • 2 bollar hrísgrjón
  • 120 ml hvítvín
  • 1 og 1/2 bolli rifinn parmesan ostur
  • 1 bolli fínt söxuð steinselja
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 200 gráður. Hreinsið rækjurnar og þerrið. Setjið þær í ílát, hellið olíu yfir þær, sáldrið paprikukryddinu yfir og salti og pipar og blandið vel saman. Geymið í kæli meðan risottóið er útbúið.
  2. Hitið soðið upp í potti á lágum hita.
  3. Í öðrum pott – helst nokkuð breiðum og ekki verra ef hann er úr steypujárni, skal bræða smjörið á miðlungshita. Bætið við lauknum og hvítlauknum og steikið uns mjúkt og farið að brúnast eða í 2-3 mínútur.
  4. Bætið þá hrísgrjónunum við og hrærið vel saman og passið að hrísgrjónin blandist vel við smjörið og laukinn. Eldið þannig í 1-2 mínútur. Bætið þá hvítvíninu saman við og rennið sleifinni reglulega eftir botninum uns allur vökvinn hefur gufað upp.
  5. Ausið heitu kjúklingasoðinu rólega yfir grjónin og hrærið reglulega. Bíðið með að setja næstu ausu fyrr en grjónin hafa drukkið í sig þá fyrri. Þessi aðferð er mjög mikilvæg til að tryggja að grjónin losi sig við sterkjuna og úr verði dásamleg sósa þannig að takið því rólega í þessu skrefi og vandið ykkur. Ef vökvinn hverfur of hratt eða grjónin sjóða um of skal lækka hitann þannig að suðan haldist í lágmarki.
  6. Þetta ætti að taka ykkur 20 mínútur í heildina. Þið getið byrjað að smakka grjónin til eftir 13 mínútur eða svo til að sjá hvernig grjónin eru að eldast. Risottóið er tilbúið þegar grjónin hafa enn smá bit og rétturinn minnir helst á þykkan graut.
  7. Á síðustu fimm mínútum skal raða rækjunum í eldfast mót eða á smjörpappír og grilla í ofninum þar til þær eru orðnar bleikar og eldaðar eða í um fimm mínútur. Þegar risottóið er tilbúið skal slökkva undir því og bæta parmesan-ostinum við og um hálfum bolla af steinselju. Smakkið til og saltið og piprið eftir smekk.
  8. Berið strax fram með því að setja risottóið í pastaskálar og raðið rækjunum ofan á. Sáldrið afgangnum af steinseljunni yfir.
mbl.is/The Kitchn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert