Spænskt veitingahús á Mýrargötunni

Boðið verður upp á spænskan mat á LOF.
Boðið verður upp á spænskan mat á LOF. mbl.is/RAX

Nýtt veitingahús, LOF, hefur verið opnað á Mýrargötu 31 í Reykjavík. Staðurinn sérhæfir sig í spænskri matargerð. Þar er rými fyrir 55 gesti innandyra og á garðpalli sem snýr til suðurs á baklóð. Staðurinn er opinn í hádeginu og á kvöldin alla daga.

Eigendur staðarins eru Enzo Rinaldi, José Garcia, Jakob Helgi Bjarnason og Birgir Örn Arnarson.

Rinaldi og Garcia sjá um matseld, ásamt tveimur öðrum kokkum frá Spáni. Danski arkitektinn Tine K. kom að innanhússhönnun. Húsgögn og húsbúnaður koma frá versluninni Magnoliu á Skólavörðustíg 38. Birgir Örn er einn eigenda verslunarinnar.

Skipta má matseðlinum í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er boðið upp á blöndu 12 rétta af matseðli ásamt víni. Sex eru kaldir og sex heitir. Í öðru lagi paellu fyrir tvo eða fleiri. Sá réttur kostar 2.500 krónur á mann ef fjórir panta. Í þriðja lagi tapasrétti og í fjórða lagi aðalrétti. Verð tapasrétta er frá 900 krónum og verð aðalrétta frá 4.000 krónum.

Staðurinn er bjartur og fagur að innan.
Staðurinn er bjartur og fagur að innan. mbl.is/RAX

Alinn upp á veitingahúsi

Við anddyrið er setustofa þar sem boðið er upp á smærri rétti og vín.

Eldhúsið er opið og má fylgjast með kokkunum að störfum.

Veitingamaðurinn José Garcia hefur langa reynslu af íslenskum veitingageira. Hann hefur meðal annars starfað á Vegamótum og sem yfirkokkur á Hótel Höfn, auk fyrri starfa sem kokkur á Spáni.

„Ég er alinn upp á veitingahúsi. Fjölskylda mín átti veitingahús á Spáni,“ segir Garcia sem flutti til Íslands fyrir rúmum 20 árum.

Hann segir það stefnu staðarins að bjóða rétti frá öllum sautján héruðum Spánar. „Spánverjar eru ekki með alþjóðlegan rétt. Hvert hérað er með sína eigin rétti,“ segir hann.

Á vínseðlinum eru meðal annars Rioja-vín frá Spáni og vín frá Argentínu. Meðal tapasrétta er Croquetas de bacalao, sem er gert úr djúpsteiktum söltuðum þorski. Saltfiskur er einnig meðal aðalrétta. Sá réttur heitir Bacalao a la Vizcaína.

Í bakgarðinum er gott útisvæði. Fastlega má reikna með að …
Í bakgarðinum er gott útisvæði. Fastlega má reikna með að þar verði ákaflega veðursælt í sumar. mbl.is/RAX

Með túnfisk frá Spáni

Meðeigandi Garcia, Enzo Rinaldi, segir matseðilinn sígildan.

„Hugmyndafræðin er að bjóða sígilt spænskt eldhús. Staðurinn heitir fullu nafni LOF Cocina y Vino, eða LOF matur og vín. Við tökum bestu réttina frá Spáni, eldum þá úr góðu hráefni og berum fram á sígildan hátt. Við bjóðum m.a. upp á túnfisk sem er einkennandi fyrir matreiðslu á Norður-Spáni,“ segir Rinaldi.

Staðsetningin mjög góð

Birgir Örn og félag honum tengt byggðu húsnæði staðarins. Félagið er nú að selja íbúðir á efri hæðum. Meirihluti þeirra er þegar seldur.

Birgir Örn segir staðsetninguna afar góða. LOF sé steinsnar frá höfninni og framhjá staðnum gangi til dæmis mikill fjöldi farþega sem komi með skemmtiferðaskipum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »