Algeng þvottamistök sem kosta krónur og klúður

Þvottur.
Þvottur. AFP

Engum finnst sennilega gaman að þvo þvott. Eins og það er dásamlegt að fara í hrein og ilmandi föt er jafnömurlega leiðinlegt að þvo þau og enn verra að gera það eftir kúnstarinnar reglum. Ó já, það eru nefnilega til „réttar“ og „rangar“ aðferðir við þvottastússið.

Kannski ertu að þvo þvottinn þinn á kolvitlausan hátt og um leið að skola fullt af peningum út með þvottavatninu.

Notarðu kannski of mikið þvottaefni?

Hljómar sennilega órökrétt. Meira þvottaefni hlýtur að gera fötin hreinni – eða hvað? Ótrúlegt en satt, mikið þvottaefni er ekki málið. Þú hefur kannski lent í að gera þessi mistök án þess að fatta það. Hefur einhvern tíma orðið hissa að taka hreinan ilmandi þvott úr þurrkaranum og það er eins og hann sé óhreinn enn þá, ef til vill í honum blettir sem þú tókst ekki eftir þegar þvotturinn fór í vélina. Samkvæmt úttekt á málinu á CNN gæti sökudólgurinn verið of mikið þvottaefni. Þar er bent á að ef þvottaefnið er of mikið geti það dregið í sig óhreinindi og safnast upp á stöðum sem skolvatnið nær ekki til, t.d. undir krögum eða skyrtuflibbum. Þetta getur boðið upp á hreiður fyrir bakteríur.

Á heimasíðu Tide er bent á að of mikið þvottaefni komi í veg fyrir að fötin geti nuddast nógu vel saman í vélinni. Þar er fullyrt að það sé fyrst og fremst núningurinn milli flíkanna sem geri þær hreinar.

Mikið þvottaefni hjálpar sumsé ekki til við að hreinsa fötin þín, þvert á móti, það getur gert þau ljót og blettótt og skapað fleiri vandamál, farið illa með þvottavélina. Margir hafa hingað til sett samasemmerki milli magns af þvottaefni og hreinleika þvottarins, það er ekki svo. Gæði þvottaefnisins er líka annar þáttur sem skiptir miklu máli.

Hvað er þá hæfilegt magn af þvottaefni?

Ekkert stress þótt þú uppgötvir að þú hafir notað allt of mikið af blessuðu þvottaefninu. Það eru sko margir í þeim sporum. Það er jafnvel talið að algengt sé að nota tvöfalt meira en sérfræðingar mæla með. Þetta er líka skiljanlegt, hver tekur svo sem eftir örfínu línunum á mæliglasinu sem fylgir pakkanum?

Þar sem þér þykir örugglega frekar vænt um fötin þín og ert ekki mikið fyrir að fara illa með peningana þína ættirðu að spá meira í þessi mál. Reyndu að nota helmingi minna af þvottaefni en vanalega og prófaðu þig áfram með magnið þar til þú færð þvottinn úr vélinni nákvæmlega eins og þú vilt hafa hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert