Hvað áttu helst að þrífa vikulega?

Getty Images

Það eru ekki margir sem lifa fyrir það að skúra og skrúbba heima hjá sér en flest viljum við þó hafa hreint og huggulegt í kringum okkur. Við viljum helst hafa gljándi hrein gólf, nýþvegin ilmandi sængurföt og vera viss um að enginn köngurlóarvefur leynist inni í skáp eða undir stiganum. Það er eitthvað svo góð tilfinning að hafa allt hreint heima hjá sér.  

En hvað þarf til að halda hreinu heimili hreinu? Ekki bara endalausa tiltekt og haug af hreinsiefnum – það þarf líka að vita hvað er nauðsynlegt að hreinsa og hvenær. Til að halda púlinu innan skynsamlegra marka eru hér nokkur góð ráð um hve oft þarf að skúra út í hvert horn. 

Hér er listi yfir það sem skyldi þrífa vikulega: 

Sængurföt: Það virðist kannski full mikið að þvo sængurfötin í hverri viku, ekki síst ef margir búa á heimilinu, en það er samt langbest að skipta á rúmunum vikulega. Fyrir utan það hve dásamlegt er að hreiðra um sig í brakandi hreinum sængurfötum, maður sefur aldrei betur. 

Handklæði: Í rauninni þarf að skipta um handklæði oftar en einu sinni í viku, best er að nota þau um það bil þrisvar áður en þau fjúka í þvottakörfuna. Þetta fer auðvitað eftir því hve oft er farið í sturtu og hve fljótt handklæðin þorna á milli (stundum er allt í lagi að nota þau einu sinni enn ef þau ná að þorna fljótt við kjöraðstæður). 

Gólfin: Þegar rykhnoðrar fara að flögra um gólfið er kominn tími til að sópa, moppa eða skúra. Og þó að rykið sé ekki sýnilegt er óhætt að reikna með að þetta þurfi að gera að minnsta kosti einu sinni í viku. 

Vaskar: Tannkremstaumarnir í baðherbergisvaskinum og diskastaflar í eldhúsvaskinum kalla á meira en vikulega umhirðu. Gott hreinsiefni af og til er nauðsynlegt og tekur ekki langa stund að strjúka yfir með því og skola því niður. 

Salerni: Að skrúbba klósettið er aldrei efst á vinsældalistanum, en við komumst ekki hjá því. Ef við gerum það rækilega einu sinni í viku tekst okkur að halda verstu bakteríuflóru heimilisins í skefjum. 

Tannburstar: Skrítið kannski, en nauðsynlegt. Við skiptum um tannbursta á nokkurra vikna eða mánaða fresti, en það er hægt að nota burstann lengur með því að þvo hann upp úr munnskolsvatni eða sjóða í nokkrar mínútur. Það heldur bakteríum í skefjum. 

Mánaðarleg tiltekt 

Gluggar: Nauðsynlegt er  þvo gluggana rækilega að utan og innan að minnsta kosti einu sinni á ári. En það er ekki nóg, það veitir ekki af að strjúka af þeim að innan í hverjum mánuði. 

Sturta og baðker: Kannski er ekki bráðnauðsynlegt að skrúbba sturtuna og baðkerið rækilega í hverjum mánuði en það er alveg þess virði. Með því að bursta fletina með mjúkum bursta og góðu hreinsiefni  viðhalda gljáa á flísunum og baðkerinu og verja fúgurnar gegn myglu.  

Hreinsigræjur: Hreingerningaráhöld endast allt frá mánuði (svampar) og upp í ár (sópar og skrúbbar). Þessir hlutir gegna lykilhlutverki við heimilisþrifin og mikilvægt að athuga mánaðarlega hvort þeir séu í lagi. 

Hillur: Notarðu klút eða moppu? Hvort heldur sem er, upp með græjuna, það veitir ekki af að þurrka af öllum hillum einu sinni í mánuði. 

Það sem ekki sést: Það er auðvelt að gleyma ýmsu sem ekki sést í fljótu bragði. Hafðu augun opin, lampaskermar, myndarammar, skálar og skot. Rykið smýgur víða, vert að þefa uppi leynistaði þess einu sinni í mánuði.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert