Kjúklingasúpa sem rífur í

mbl.is/GimmeSomeOven.com

Vetur konungur virðist ekki ætla að sleppa okkur út í sumarið og þá er eina ráðið að hlýja sér í eldhúsinu og elda sér eitthvað til huggunar. Þessi kjúklingasúpa er samanbarningur úr mörgum ólíkum uppskriftum þar sem við héldum því sem okkur féll í geð og slepptum hinu. Þessi súpa er dásamlega matarmikil, rífur vel í og yljar inn að köldustu beinum, sem er akkúrat fullkomið í veðri sem þessu. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að í henni er ógrynni af innihaldsefnum og svolítið dúllerí að búa hana til en hún er hverrar mínútu virði og við höfum ekkert betra að gera. Það nennir hvort eð er enginn út í þetta veður!

Kjúklingasúpa sem rífur í

  • 1 matskeið kókosolía
  • 3 matskeiðar Thai Red Curry Paste
  • 1 ferskt rautt chili
  • 5 hvítlauksgeirar
  • 4 cm engifer
  • 1 lítil dós svartar baunir
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 1 matskeið sojasósa
  • 1 matskeið púðursykur
  • 2 lítrar vatn
  • 1 teskeið chili sulta
  • 3 matskeiðar sweet chili sósa
  • 1 matskeiða tómatpúrra
  • safi úr einni límónu
  • 1 paprika
  • 1 púrrulaukur
  • 2 kjúklingabringur
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • salt
  • pipar
  • chiliduft
  • handfylli pasta (einnig má nota hrísgrjón)
  • handfylli kóríander
  • rifinn ostur eftir smekk
  • sýrður rjómi eftir smekk
  • 1 avókadó
  • nachos flögur eftir smekk

Aðferð:

Hitið kókosolíuna í stórum potti. Saxið hvítlauk, engifer og chili smátt, og steikið í pottinum í nokkrar mínútur. Brytjið kjúklinginn í bita og bætið við í pottinn ásamt Red Curry Paste púrrunni og steikið allt saman í nokkrar mínútur, gott er að velta kjúklingnum vel og vandlega upp úr púrrunni. Bætið við vatni, krafti og kryddi og sjóðið í um 10 mínútur. Skerið paprikuna smátt og bætið við í pottinn ásamt baunum, kókosmjólk, sojasósu, sykri, sultu, chili sósu, tómatpúrru og límónusafa. Náið upp góðri suðu og leyfið þessu að malla í 20 mínútur. Smakkið til og bætið við salti og pipar eftir smekk. Að lokum má saxa púrrulaukinn niður og þrusa í pottinn ásamt handfylli af pasta. Þegar pastað er soðið má bera súpuna á borð.

Í raun er hægt að stinga hverju sem hugurinn girnist ofan á hverja og eina súpuskál þegar hún er borin fram, en við mælum með handfylli af rifnum osti, eina matskeið af sýrðum rjóma, nokkrar sneiðar af avókadó og strá svo nachos flögum og kóríander yfir herlegheitin. 

Þessi súpa er dásamlega matarmikil, rífur vel í og yljar …
Þessi súpa er dásamlega matarmikil, rífur vel í og yljar inn að köldustu beinum. mbl.is/GimmeSomeOven.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert