Brúðarterta Harry og Meghan

Hér má sjá mynd af köku eftir Claire Ptak en …
Hér má sjá mynd af köku eftir Claire Ptak en gaman er að fletta í gegnum Instagram-reikning hennar og fyllast innblæstri. mbl.is/skjáskot af @violetcakeslondon

Það ætlar allt um koll að keyra yfir væntanlegri vígslu hjónaleysanna Harry prins og Meghan Markle, en brúðkaupið er rétt handan við hornið, 19. maí. Fólk getur velt sér endalaust upp úr hinu konunglega brúðkaupi, hvaða kjól fröken Markle kemur til með að klæðast, hverjir verði á gestalistanum og þar fram eftir götum.

Við hér á matarvefnum kærum okkur hins vegar kollótt um hvaða kjólgopa konan verður í og höfum öllu meiri áhuga á að velta fyrir okkur matseðli og veitingum. Það hvílir að sjálfsögðu mikil leynd yfir athöfninni, veislunni og öllu sem henni fylgir en hjónaleysin hafa þó tilkynnt að bakarinn Claire Ptak komi til með að baka brúðartertuna fyrir veisluna. Claire rekur bakarí í London sem heitir Violet Cakes. 

Segir í tilkynningu frá Kensington-höll að Meghan og Harry hafi beðið um brúðartertu sem minnir á vorið og er það sítrónukaka með ylliblómum sem varð fyrir valinu. Kakan verður þakin smjörkremi og skreytt með ferskum blómum, og fregnir herma að hún verði nútímaleg og gamaldags í senn. Claire Ptak er þekkt fyrir frjálslegar aðferðir og svolítið villt útlit á kökuskreytingum og má því búast við því að brúðartertan verði örlítið frjálslegri og afslappaðri í útliti en venjan er í konunglegum brúðkaupum. En eitt er víst að mikið verður um dýrðir og kátt í höllinni 19. maí.

Hér að neðan má sjá mynd af köku eftir Claire en gaman er að fletta í gegnum Instagram-reikning hennar og fyllast innblæstri.

mbl.is