Íslenskur þorskur í heimsfrægu tímariti

Sérlega gómsætar fiskikökur.
Sérlega gómsætar fiskikökur. mbl.is/Good Food Magazine

Þessi uppskrift kemur úr smiðju gourmet tímaritsins Good Food Magazine sem þykir með þeim betri í bransanum. Athygli vekur að uppskriftin kveður skýrt á um að íslenskur þorskur sé notaður í hana.

Um er að ræða sjúklega girnilega uppskrift af fiskkökum sem eru kannski ekki svo algengar hér á landi en eru svo góðar að hægt er að borða þær í hvert mál og helst sem oftast.

Sósan er tartare-leg sósa og því köllum við hana bara tartare sósu með fyrirvara.

Fiskikökur með tartare sósu

Tartare sósa

  • 125 ml majónes
  • 1 msk (kúfuð) capers, gróft saxaðir
  • 1 msk (kúfuð) piparrótarmauk
  • 1 msk (kúfuð) Dijon sinnep
  • 1 lítill shallot, fínt saxaður
  • 1 tsk steinselja, fínt söxuð
Fiskikökurnar
  • 450 gr íslenskur þorksur
  • 2 lárviðarlauf
  • 150 ml mjólk
  • 350 gr kartöflur
  • ½ tsk fínt rifinn sítrónubörkur
  • 1 msk steinselja, söxuð
  • 1 msk vorlaukur, saxað
  • 1 egg
  • hveiti
  • 85 g brauðmylsna
  • 3-4 msk grænmetisolía, til steikingar
  • Sítrónusneiðar og vatnakarsi (ef þið finnið svoleiðis) – til að bera fram

Aðferð:

  1. Blandið öllum sósuhráefnunum saman og setjið til hliðar.
  2. Setjið fiskinn og lárviðarlaufin á steikarpönnu. Hellið mjólk yfir og 150 ml af vatni. Setjið lokið yfir og látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann og látið malla i 4 mínútur. Takið af hellunni og látið standa í 10 mínútur eða þar til fiskurinn er orðinn mjúkur en er enn þéttur í sér (dettur ekki í sundur).
  3. Á meðan skal skræla kartöflurnar og skera niður. Setjið í pott og setjið sjóðandi vatn yfir þannig að vatnið rétt fljóti yfir. Saltið vatnið og látið suðuna koma aftur upp og sjóðið í 10 mínútur eða svo þar til kartöflurnar eru soðnar.
  4. Takið fiskinn úr mjólkurblöndunni og setjið á disk. Látið kólna. Síið kartöflurnar og látið standa í eina til tvær mínútur. Setjið þær aftur í pottinn á lágan hita og látið þær þorna í mínútu eða svo. Maukið létt með gaffli og hrærið þær til svo þær festist ekki við botninn. Útkoman ætti að vera létt og þurr maukblanda. Takið af hitanum og blandið 1 kúfaðri matskeið af sósunni saman við. Bætið því næst við sítrónuberkinum, steinselju og vorlauk. Kryddið með salti og pipar. Kartöflurnar ættu að vera mjög bragðgóðar þannig að smakkið til og kryddið eftir smekk.
  5. Helli vökvann af fiskinum, malið pipar yfir hann og takið hann síðan í sundur með gaffli í fremur stóra bita. Setjið saman við kartöflurnar. Notið hendurnar til að blanda fiskinum saman við kartöflurnar. Það þarf alls ekki að blanda mikið né vel þar sem fiskurinn fer þá í of litla bita. Setjið til hliðar og látið kólna.
  6. Pískið eggin í stórri skál og setjið hveiti á brettið. Dreifið brauðmylsnunni vel á ofnskúffu. Skiptið fiskinum í fjóra bita og mótið líkt og hamborgara. Hver kaka ætti að vera um 2,5 sm á þykkt. Setjið kökurnar, eina í einu í hveitið og því næst í eggjablönduna og penslið þannig að kakan sé alveg hjúpuð. Því næst skal setja kökuna í brauðmylsnuna og hjúpa hana vel. Setjið á disk og látið standa í ísskáp í 30 mín hið minnsta.
  7. Hitið olíu á steikarpönnu. Til að kanna hvort olían sé orðin nógu heit er gott ráð að setja smá brauðmylsnu út á pönnuna. Ef hún gefur frá sér skemmtilegt steikingarhljóð og verður gullinbrún á skömmum tíma er hún tilbúin. Steikið kökurnar – um fimm mínútur á hvorri hlið uns þær eru orðnar stökkar og gómsætar. Berið fram með sósunni og kreistið smá sítrónu yfir og berið fram með vatnakarsanum (ef hann verður á vegi ykkar).

Heimild: Good Food Magazine

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert