Vikumatseðill Rikku

Friðrika Hjördís Geirsdóttir
Friðrika Hjördís Geirsdóttir Eggert Jóhannesson

Morgundrottningin Rikka eða Friðrika Hjördís Geirsdóttir tók að sér það vandasama verk að setja saman matseðil vikunnar. 

Á matseðlinum kennir ýmissa grasa og ekki annað hægt en að fylgja fordæmi hennar og fagna sumrinu. 

Mánudagur

Ég er að reyna að venja mig á að vera með fisk á mánudögum en það tekst reyndar ekki alltaf. Mér líst afskaplega vel á þessa uppskrift frá snillingnum Berglindi Guðmundsdóttur.

Með fisknum myndi ég svo skella í eina sýrða rjómasósu þar sem ég myndi skella smá fersku kóríander, chili-flögum, sítrónusafa og jafnvel örlitlum hvítlauk.

Þriðjudagur

Ein leið til að slá í gegn hjá krökkunum mínum er að vera með mexíkanska súpu reglulega. Með súpunni er algerlega nauðsynlegt að bera fram rifinn cheddar ost, kóríander, nachos og sýrðan rjóma. Hér er ein ljómandi góð uppskrift frá dásamlegu Evu Laufeyju minni

Miðvikudagur

Egg og beikon er ein fullkomnasta samsetning sem manneskjan hefur fundið upp á. Spaghetti Carbonara sameinar á ný þessa einingu ásamt því að bæta pasta og parmesan saman við. Ég segi bara amen!

Fimmtudagur

Díó míó, þetta verð ég að prufa. Ég viðurkenni það fúslega að ég er kjötbollukerling og leik mér mikið með hráefnið. Stundum skelli ég fetaosti í þær, allskyns kryddum og jafnvel linsubaunum til að auka trefjainntöku. Mér finnst best að blanda smá svínahakki við nautahakkið þá verða þær töluvert meira “djúsí”

Föstudagur

Föstudagskvöld eru heilög pizzakvöld á mínu heimili. Þetta er su stund þar sem við fjölskyldan sameinumst í pizzagerð og stráum hveiti upp um alla veggi. Mér líst ljómandi vel á að prófa eftirfarandi uppskrift á næstunni

Laugardagur

Laugardagskvöldin eru nokkuð afslöppuð á heimilinu og því ekki úr vegi að skella nautasteik á grillið. Ég er svo óskaplega hrifin af því að setja svo truffluolíu út í bernaise sósuna, sem að mínu mati er ómissandi með. Ef það er afgangur af sósunni daginn eftir nota ég hana oft í Egg Benedict.

Sunnudagur

Krakkarnir mínir elska bragðsterkan mat og iða í skinninu þegar ég byrja að marínera indverskan kjúkling og hnoða í naan brauð. Uppskriftin af Tikka Masala kjúkling er því kjörin á sunnudagskvöld á mínu heimili.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert