Hollustuhræra Röggu Ragnars

Ragga hugsar vel um heilsuna og er í dúndurformi, enda …
Ragga hugsar vel um heilsuna og er í dúndurformi, enda dugar ekkert annað þar sem hún fer nú með aðalhlutverk í Vikings þáttunum vinsælu og geta vinnudagarnir verið strembnir. mbl.is/RR

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins. Við settum okkur í samband við Ragnheiði Ragnarsdóttur, leikkonu sem deilir með okkur einfaldri uppskrift að skotheldum morgunverði sem nærir kroppinn. Ragga hugsar vel um heilsuna og er í dúndurformi, enda dugar ekkert annað þar sem hún fer nú með aðalhlutverk í Vikings þáttunum vinsælu og geta vinnudagarnir verið strembnir. „Vinnan mín er mjög erfið á köflum, tökudagar langir og mikið um að vera. Vikings þættirnir eru líka þekktir fyrir mikinn hasar og ég þarf að vera í góðu líkamlegu og andlegu jafnvægi til að klára dagana í vinnunni vel.“

Eins flestum er kunnugt þá var Ragga íþróttakona á heimsmælikvarða, áður en hún fór yfir í leiklistina, og hefur því mikinn aga eftir að alast upp í sundinu. „Ég hef alltaf hugsað rosalega mikið um hvað ég set ofaní í mig og þegar ég var að synda þá var það mjög stór partur af því hversu vel mér gekk í sundi. Núna þegar ég er að leika í Vikings er það er sama sagan, ég hugsa nákvæmlega eins um vinnuna og íþróttirnar. Ég er alltaf á tánum og þarf að hafa fulla orku og kraft í vinnunni.“

Þó Ragga sé núna í sumarfríi þá heldur hún sér vel við efnið og mætir í líkamsrækt í Hreyfingu 4-5 sinnum í viku, syndir reglulega og borðar hollt. „Ég var að byrja á nýju æfingakerfi í Hreyfingu sem heitir MyZone og er púlsmælir sem ég fer með á æfingu og í sund. Svo er ég með app í símanum sem heldur utan um æfingarnar og ég get tengt mig við vini sem eru líka að nota MyZone og við skorað á hvert annað. Ég er búin að fá svolítið spark í rassinn með þessu og er farin að æfa betur og markvissara. Þess vegna er ég líka mjög mikið að hugsa um hvað ég læt ofan í mig milli æfinga.“

Það er ekki spurning að velgengni Röggu kemur til af því hversu vel hún hugsar um sig, og hvað hún lætur ofan í sig. Hennar töfrablanda eru góð prótein, holl og góð kolvetni og góð fita. Hún deilir hér með okkur hollri og góðri eggjahræru sem inniheldur allt þetta og fylgir manni vel út í daginn. „Ég hef alltaf viljað borða vel af góðum próteinum og þegar ég fer snemma á æfingu á morgnana þá finnst mér æði að fá prótein-kikkið mitt úr þessari eggjahræru. Stundum fæ ég mér tómata og hnetur með, stundum ávöxt og kaffi, en alltaf er eggjahræran mín eins.“

Hollustuhræra Röggu Ragnars

  • 1 heilt egg
  • 2 eggjahvítur
  • 20-30 gr ostur (oftast nota ég mozzarella)
  • 1 msk kókosolía
  • 1 msk kotasæla
  • Ólífuolía (ég nota bara hágæða olíu og er nýlega búin að uppgvöta Olifa, frá Ítalíu sem er frábær)
  • salt, pipar og stundum eitthvað gott krydd ef ég er í stuði fyrir það.

Aðferð

Ég set kókosolíuna á pönnuna og bræði. Eggin og osturinn eru hrærð og elduð næstum alveg, þá bæti ég kotasælunni við og hræri allt saman. Kotasælan bráðnar og þetta verður ómótstæðilega góð eggjahræra. Að lokum set ég góða ólífuolíu ofan á, salt, pipar og krydd. 

Töfrablanda Röggu eru góð prótein, holl og góð kolvetni og …
Töfrablanda Röggu eru góð prótein, holl og góð kolvetni og góð fita. Þessi eggjahræra inniheldur allt þetta og fylgir manni vel út í daginn. mbl.is/RR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert