Grænmetisbóndinn og veiðigyðjan Þórdís Lóa

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, kom á dögunum ný fram á hinn pólitíska vettvang. Þórdís Lóa, eða Lóa eins og hún er jafnan kölluð af vinum og vandamönnum, hefur komið víða við í gegnum tíðina. Hún er með gráðu í sjónvarpsframleiðslu, BA gráðu í félags og afbrotafræði, framhaldsnám í félagsráðgjöf og loks MBA gráðu í rekstrarhagfræði.

Lóa starfaði í tæp 20 ár sem stjórnandi á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Svo vatt hún kvæði sínu í kross og hefur sl. 13 árin verið viðloðin viðskiptaheiminn og einnig látið til sín taka í ferðaþjónustunni hér á landi. Fyrir utan fjölbreyttan mennta- og starfsferil lifir Lóa innihaldsríku félagslífi og setur vini og söngelska fjölskyldu sína í forgang. Það sem færri vita er að Lóa er matjurtarbóndi og svokallaður “slow-food”-ari. Okkur lék forvitni á að vita meira um þennan lífstíl og spurðum Þórdísi Lóu nokkura spurninga. 

Vígaleg í vöðlunum.
Vígaleg í vöðlunum.

Hvernig lýsir “slow-food”-lífstíllinn sér? Hann lýsir sér í raun þannig að maður er mjög trúr því að allt komi frá náttúrunni. Þegar ég segi náttúrunni þá er ég bæði að meina allt sem maður ræktar eða kjöt og fiskur sem maður veiðir sjálfur. Þetta þýðir að maður ræktar allt grænmeti og kryddjurtir sjálfur og nýtir það eins mikið og hægt er. Það eru ótal valmöguleikar. Fyrir utan að búa til salat eða matreiða grænmetið sem slíkt. Þá er hægt að gera allskyns pestó, dressingar, mareneríngar og svo mætti lengi telja. Svo notum við allt grænmetið og kryddjurtinar til að útbúa og matreiða sjálft kjötið og fiskinn frá grunni. Margir halda að “slow food” sé einungis grænmeti, kartöflur og kryddjurtir. En undir þessa aðferðarfræði er líka hægt að gera eigin osta, jógúrt, ís og allt sem snýr að því að gera kjöt og fisk.

Glæsilegur grænmetisgarður.
Glæsilegur grænmetisgarður.

Hvernig kom það til að þú og fjölskyldan urðuð grænmetisbændur og veiðimenn? Ég er búin að vera að veiða silung og rjúpur frá tvítugt og svo fór ég aðeins seinna að skjóta gæs og hreindýr og veiða lax. Síðan þegar gerist það þegar ég er í MBA námi samhlið fullu starfi sem framkvæmdarstjóri á Velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg að ég fór að sækja meira í að rækta mitt eigið grænmeti og útbúa meiri mat og hráefni frá grunni. Ég var á yfirsnúning í kapphlaupi við tímann á hverjum degi en fékk mig samt sem áður ekki til að fara í jóga, hugleiðslu eða annað sem myndi veita mér hugarró. Þá komst ég að því að þessi iðkun gaf mér einmitt það, ég róaðist svo á því að vera útí náttúrunni að hlúa að einhverju og nánast taka þátt í ljóstillífuninni sjálfri. Og hef ég gert þetta allar götur síðan. Stundum meira og stundum minna, bara eftir því sem ég þarf og get. Þetta er aldrei kvöð í mínum augum né vesen.

Ekki amaleg uppskera.
Ekki amaleg uppskera.

Hvernig myndi draumamatarboðið þitt vera? Matarboðið mitt væri ævintýrasmakkferð með villibráðarívafi. Þá sé ég fyrir mér að gera allskyns tilraunir með gæsalæra confit, dúnmjúkri hreindýramousse, heitreykta bleikju, grafinn silung úr Másvatni. Svo myndi ég gera einhverjar varíeisjónir af gæsalærakjötbollum með beikoni og gráðosti. Þetta myndi maður svo bera fram með heimabökuðum kartöflum með rósmarín og timian, eplasalati af eplatrénu sem stendur bak við hús heima í Árbænum og fersku salati úr matjurtargarðinum. Svo er líka mjög mikilvægt að eiginmaðurinn geri sína villibráðasósu sem ber það lýsandi nafn “Tilbrigði við fullnægingu”.

Veiðigyðjan í Laxá í Kjós.
Veiðigyðjan í Laxá í Kjós.

Ef þú yrðir borgarstjóri hvað myndir þú gera til að fá fleiri til að aðhyllast þennan lífstíl? Ég myndi vilja sjá matjurtargarða miklu víðar, í allskonar formi og í öllum stærðum og gerðum. Við þurfum að afskólagarðavæða hugrenningartengslin við þetta fyrirbæri sem slíkt. Það er hægt að hafa matjurtargarð fyrir framan húsið sitt og þar af leiðandi vera í meiri samskiptum við nágranna og mannlífið í kringum þig, inn í miðjum byggðarkjörnum og nýta þá fyrirkomulag deilihagkerfisins. Svo er hægt að hafa mun fleiri garða á húsþökum, að því gefnum að þau séu flöt þá. Ég myndi sérstaklega hvetja stofnanir og fyrirtæki til að koma upp matarjurtargarði á sínu svæði.

Aflaklóin ánægð með veiðina.
Aflaklóin ánægð með veiðina.
mbl.is