Kjúklingasúpa með asískum kryddum

Virkilega girnileg súpa að hætti Sirrýar í Salt eldhús.
Virkilega girnileg súpa að hætti Sirrýar í Salt eldhús. mbl.is/Salt eldhús

Sirrý í Salt eldhús er afburðarflink í eldhúsinu enda fyrrrverandi ritstjóri Gestgjafans, þáttagerðakona og almennur eldhús-gúrú. Hér gefur að líta uppskrift fá henni að kjúklingasúpu með asískum kryddum sem er fullkomin í hvert mál.

Ákaflega girnileg og með skemmtilegum bragðsamsetningum.

Heimasíðu Salt eldhúss má nálgast HÉR.

Kjúklingasúpa með asískum kryddum

Hér er uppskrift að dásamlegri súpu sem er akkúrat súpan sem er gott að fá sér núna þegar kalt er í veðri. Límónulaufin gefa súpunni mjög sérstakt bragð en þau er hægt að fá í Asíubúðum, frosin í litlum kassa sem er gott að eiga í frysti. Við mælum með að kaupa núðlur þar líka, þær eru einfaldlega svo miklu betri þar og eins er kókokmjólkin í fernunum 100% kókosmjólk og það er mikill munur á henni og flestu öðru.  Five-spice er hægt að búa til sjálfur en það er gott að nota t.d. til að krydda andarbringu með, það gefur frábært bragð.

 • 3 hvítlauksgeirar
 • 5 cm bútur engifer
 • 40 g ferskur kóríander
 • 1 ferskur rauður chilipipar
 • 3 msk. olía
 • 400 g kókosmjólk
 • 6 dl vatn
 • 2 tsk. kjúklingakraftur
 • 2 límónulauf ( kafir lime leaf fást frosin í asíubúðum)
 • 3 msk. fiskisósa
 • 200 g hrísgrjónanúðlur, soðnar eftir leiðbeiningum á pakkanum
 • 1 límóna, safi úr henni
 • 3-4 vorlaukar, sneiddir þunnt
 • 500 g beinlaus kjúklingur, best að nota úrbeinuð læri
 • 2 msk. five-spice krydd, fæst í asíubúðum en er hægt að búa til mjög gott heima
 • Setjið hvítlauk, engifer, kóríander og chili í matvinnsluvél og blandið mjög vel saman.

Heimagert five-spice:

 • 1 msk. stjörnuanís
 • 1 meðalstór kanelstöng
 • 1 msk. svartur pipar
 • 1 msk. heilar kardimommur
 • 3 msk. sykur

Hitið olíuna á djúpri pönnu og steikið kryddblönduna þar til blandan er vel steikt og eldhúsið ilmar vel. Hellið kókosmjólkinni, vatninu og kjúklingakrafti og límónulaufum, ef þið eigið þau, út í og látið allt sjóða saman í 10 mín. Bætið fiskisósu í og smakkið til með límónu.

Á meðan súpan sýður; veltið kjúklingnum upp úr five-spice blöndunni og steikið hann á pönnu á báðum hliðum. Sjóðið núðlur eftir leiðbeiningum og haldið þeim volgum. Þetta hvortveggja má gera tímanlega og setja til hliðar.

Setjið súpuna saman þannig. Skiptið núðlum á milli í 4 skálar, ausið súpunni yfir, skerið kjúklinginn í strimla og setjið yfir, toppið með söxuðum vorlauk, fersku rauðu chili og meira af ferskum kóriander. Uppskriftin er fín fyrir fjóra svanga.

Allt sett í krydd- eða kaffikvörn og malað fínt. Gott í ýmsa rétti og frábært til að velta andarbringum upp úr.

mbl.is