Svona er best að þrífa klósettið

Mikilvægt er að halda klósettinu hreinu.
Mikilvægt er að halda klósettinu hreinu. mbl.is/Duravit

Það er kúnst að þrífa klósett almennilega og merkilegt nokk þá vefst það fyrir ansi mörgum. Heimildamaður Matarvefjarins hefur starfað við heimilisþrif og hótelræstingar og fullyrðir að það sé merkilegt hvað fyrirbærið klósettbursti reynist mörgum erfiður. Grundvallarreglan er einföld: Þegar þú hefur lokið þér af þá þrífur þú eftir þig. Annað er argasti óþrifnaður. 

Byrjaðu á að spreyja klósettið vel með hreinsiúða. Hér hefur fólk misjafnar skoðanir á hvað sé best. Sumir gera sína eigin blöndu sem samanstendur af 1 hluta af uppþvottalegi á móti 6 hlutum af vatni á meðan aðrið nota sótthreinsandi úða. Mikilvægt er að úða sérstaklega vel öll samskeyti og þar sem skítur safnast fyrir. Látið liggja í smá stund. 

Notið gúmmíhanska og pappír sem má skola niður, eins og hefðbundinn klósettpappír. Strjúkið vel af klósettinu – alls staðar. Ekki gleyma utanverðu klósettinu, fætinum og kassanum. Best er að byrja sem fjærst sjálfri skálinni og vinna sig að henni. Næst síðast er það setan og að síðustu efsti hluti skálarinnar – svokallaður pungapollur þar sem sletturnar eru mestar. 

Sturtið niður klósettpappírnum reglulega. Þið þurfið ekki að nota of mikið. 

Á þessum tímapunkti kjósa margir að nota tannbursta til að bursta í kringum skrúfur og festingar. Þessi hluti er algjörlega valfrjáls þar sem sumum finnst fremur fráhrindandi að eiga sérstakan klósett-tannbursta. Sumir nota eyrnapinna en aðrir úða bara vel á þessa staði og nota pappírinn. 

Hér er komið að því að setja hinn sérstaka klósetthreinsi í skálina. Setjið hann í samkvæmt leiðbeiningum og látið liggja í smá stund. Takið síðan klósettburstann og skrúbbið vel. Sturtið niður og skolið klósettburstann um leið. Leggið síðan klósettburstann á setuna þannig að dropi úr honum í skálina og setuna yfir. Þá eruð þið ekki að setja hann rennblautann í dolluna sem getur orðið fremur ógeðsleg. 

Eftir smástund er burstinn orðinn þurr. Ekki gleyma að þrífa dolluna undan burstanum og volá! Klósettið er tandurhreint og glansandi. 

Svo er líka hægt að smíða græju eins og gaurinn í myndbandinu hér að neðan... gefum honum prik fyrir það!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert