Húsráð sem geta bjargað tilverunni

Stingið uppþvotta-svampi í gúmmíhringinn á þvottavélinni. Hann drekkur í sig …
Stingið uppþvotta-svampi í gúmmíhringinn á þvottavélinni. Hann drekkur í sig rakann og gúmmíhringurinn helst hreinn og þurr. mbl.is/CreativeBoom

Fátt jafnast á við vorhreingerninguna góðu. Líkt og Lóan syngur í móa er það fyrir okkur sem ljúfur vorboði að heyra sápu freyða í fötum og ryksuguna dregna fram til að háma í sig ryk og drullu vetrarins. Hérna eru nokkur bráðsniðug húsráð sem nota má til að koma heimilinu í stand fyrir sumarið. Þessi húsráð eiga margir eflaust eftir að óska að þeir hefði vitað af fyrr, enda eru þau einstaklega sniðug og eiga eflaust eftir að gera einhverjum lífið léttara.

Brauðsneið í glerbrotin
Það kannast flestir við að skríða á fjórum fótum eftir fjörugt matarboð og týna upp glerbrot eftir hressasta gestinn. En til þess að skera sig ekki á fingrunum er gott ráð að grípa eina brauðsneið og þrýsta henni varlega niður á glerbrotin, brauðið grípur glerbrotið í sig. Best er ef brauðsneiðin er mjúk og ný, og svolítið þétt í sér, þá grípur hún minnstu brotin vel.

Matarsódi á óþef og bletti
Þegar er kljáðst er við óþef sem situr sem fastast er gott að grípa til matarsódans. Margur mælir með því að strá matarsóda í strigaskóna þegar þeir eru farnir að minna á kæstan hákarl og á þá táfýlan að hverfa undir eins. Matarsódi getur einnig virkað sem fyrirtaks blettahreinsir, þá skal strá honum á blettinn, láta hann sitja í um 20 mínútur og ryksuga hann svo upp eða bursta hann úr efninu og bletturinn hverfur.

Að hreinsa upp glimmer
Það getur gert mann gjörsamlega gráhærðan að þrífa upp glimmer. Það smýgur allstaðar og getur verið nærri ómögulegt að ná því algjörlega. En við erum með ráð undir rifi hverju og mælum eindregið með því að grípa leikleir, ef hann er til á heimilinu, og þrýsta honum niður að glimmerinu. Leirinn grípur glimmerið í sig. Ef ekki er til leikleir má prófa límband. 

Svampur í þvottavélina
Flest notum við þvottavélar en við þá notkun safnast vatn í gúmmíhringinn við hurðina á vélinni. Ef það er ekki hreinsað reglulega getur safnast þar allskonar drulla og mygla. Við höfum litla þolinmæði fyrir svoleiðis rugli og stingum því uppþvotta-svampi niður í rifuna á gúmmíhringnum. Svampurinn drekkur í sig vatnið og rakann og gúmmíhringurinn helst tandurhreinn og þurr. Þegar við uppgötvuðum þetta góða ráð breyttist líf okkar til batnaðar.

Ofnahreinsir á blettina
Þegar allt um þrýtur við að ná blettum úr dúkum er ofnhreinsir eina haldreipið í ólgusjó þvotta. Þetta höfum við sannreynt oftar en einu sinni, allir heimsins blettahreinsar voru prófaðir, dúkarnir margþvegnir en lítið bifaðist bansettur bletturinn. Við spreyjum dass af ofnahreinsi í blettinn, létum hann sitja í 20 mínútur og svo í þvott og viti menn hann flaug úr. Við mælum þó einungis með þessu örþrifaráði þegar allt annað þrýtur

Að þrífa eðalsteina
Við viljum fara vel með skartið okkar og pössum okkur því að nota ekki hörð hreinsiefni á eftirlætis hringinn, hvort sem hann er með demanti eða zirkon steini. Best er að nota mildan uppþvottalög, volgt vatn og mjúkan tannbursta til að þrífa hringa eða skart með steinum. Tannburstinn hreinsar vel á milli festinga og uppþvottalögurinn nær burtu húðfitu og handáburði svo steininn gljáir eins og nýbónaður Benz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert