Ekta grísk tzatziki sósa

Þessi holla, létta og ljúffenga sósa fer einstaklega vel með …
Þessi holla, létta og ljúffenga sósa fer einstaklega vel með grillmat. mbl.is/CiaoFlorentina

Það tekur lítinn sem engan tíma að henda í góða tzatziki sósu, þar að auki er hún einstaklega sumarleg og með munnfylli af henni má lygna aftur augunum og ímynda sér að maður sitji í hæðunum á Santorini. Þessi holla, létta og ljúffenga sósa fer einstaklega vel með grillmat, gyros vefjum, og hamborgurum. Hún er einnig stórgóð ídýfa með niðurskornu grænmeti, pítubrauði eða grófu kexi.

Ekta grísk tzatziki sósa

  • 1/2 gúrka
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. góð ólífuolía
  • 500 gr. grísk jógúrt
  • 1 lítið búnt ferskt dill
  • 1/2 sítróna
  • salt og pipar

Aðferð 

  1. Skerið gúrkuna langsum í tvennt og skafið fræin úr miðjunni með matskeið. Rífið svo gúrkuna niður með grófu rifjárni.

  2. Setjið rifnu gúrkuna í sigti og tyllið því ofan á skál. Bætið við sjávarsalti og hrærið annað slagið vel í til að losa gúrkuna við vökva. Það má einnig leggja rifnu gúrkuna á örk af eldhúspappír til að þurrka hana enn frekar.

  3. Flysjið hvítlaukinn, saxið hann smátt og setjið í skál. Bætið ólífuolíunni við hvítlaukinn í skálinni. Bætið gúrkunni svo saman við og hrærið því næst grísku jógúrtinni út í og blandið vel.

  4. Skerið dillið smátt og hrærið saman við blönduna. Kreistið hálfa sítrónu og bætið safanum við. Bætið að lokum við salti og pipar eftir smekk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert