Stórhættuleg viskí-súkkulaðikaka með saltri karamellu

Ef einhver hefur smekk fyrir súkkulaði og viskíi, er ekki …
Ef einhver hefur smekk fyrir súkkulaði og viskíi, er ekki líklegt að sá hinn sami eigi eftir að fúlsa við sneið af þessari. mbl.is/JetandIndigo

Við rákumst á uppskrift af þessari skemmtilega öðruvísi köku nú á dögunum, en hana fundum við á afar fallegri matarvefsíðu sem heitir Jet & Indigo. Kakan er skemmtilegur samanbarningur af súkkulaði og viskíi, og finnst okkur bráðsniðugt að baka hana við tækifæri ef viskí-unnendur eru í fjölskyldunni eða vinahópnum. Ef einhver hefur á annað borð smekk fyrir viskíi, er ekki líklegt að sá hinn sami eigi eftir að fúlsa við sneið af þessari.

Viskí-súkkulaðikaka með saltri karamellubráð

Fyrir kökuna:

 • 225 gr. ósaltað smjör
 • 2 bollar hveiti
 • 150 gr. dökkt súkkulaði
 • 1/4 bolli „instant“ kaffiduft
 • 1/4 bolli kakó
 • 1/2 bolli vatn
 • 1 bolli viskí
 • 1/4 tsk. salt
 • 3 stór egg
 • 1 og 1/2 bolli sykur
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 2 tsk. vanilludropar

Fyrir karamelluna: 

 • 1 bolli sykur
 • 1 og 1/4 bolli rjómi
 • 60 gr. smjör
 • 1/2 tsk. sjávarsalt

Fyrir kremið:

 • 350 gr. ósaltað mjúkt smjör
 • 2 bollar flórsykur
 • 2 msk. viskí
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1/4 bolli söltuð karamellubráð

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 180 gráður. Smyrjið feiti inn í tvö kökumót sem eru um 18 sentímetrar að stærð.

 2. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og setjið til hliðar og leyfið því að kólna.

 3. Leysið „instant“ kaffiduft og kakó í skál með sjóðandi vatni. Setjið til hliðar og leyfið því að kólna.

 4. Takið stóra skál og hrærið smjörið þar til það er orðið létt og kremkennt. Bætið þá við eggjum, sykri og vanilludropum og hrærið saman þar til blandan er létt og slétt að áferð. Bætið því næst við bráðna súkkulaðinu og hrærið varlega saman.

 5. Bætið viskíinu við kaffi-kakóblönduna, og skellið því öllu svo saman við deigið. Hellið því næst hveitinu og lyftidufti saman við. Hrærið allt saman þar til það er vel blandað.

 6. Skiptið deiginu upp í tvo jafna hluta og hellið í formin tvö. Inn í ofn með mótin og bakið í 40 mínútur, eða þar til hægt er að stinga prjón í kökuna og hann kemur hreinn út úr því ferðalagi. Leyfið þá kökunum að kólna algjörlega.

 7. Þá er gott að búa til karamellubráðina. Setjið sykur á pönnu og bræðið við meðalhita eða um 10 mínútur þar til sykurinn bráðnar og verður dökk-gullin brúnn að lit. Gætið þess að hræra ekki sykrinum á pönnunni, en veltið pönnunni frekar á allar hliðar til að sykurinn bráðni jafnt.

 8. Takið pott og hitið þar saman rjóma og smjör á miðlungs-háum hita þar til það bráðnar saman. Þegar sykurinn er alveg bráðnaður má slökkva á hitanum og hræra heitri rjóma-smjörs blöndunni saman við svo úr verður karamella. Bætið við sjávarsaltinu í lokin.

 9. Því næst búum við til kremið. Þá hrærum við smjör þar til það verður létt og ljóst og bætum þá 1/4 bolla af söltu karamellubráðinni saman við. Bætið flórsykrinum varlega við og hrærið hægt. Ef ykkur finnst kremið of þunnt má bæta flórsykri saman við þar til það verður þykkara.

 10. Þegar kökurnar hafa kólnað algerlega skal taka góðan hníf og skera hverja köku langsum í tvennt svo úr verði 4 lög af köku allt í allt. Smyrjið kreminu á neðsta lagið og svo örþunnt lag af saltri karamellu ofan á það. Leggið þá annað lag af köku yfir og endurtakið að leikinn koll af kolli þar til öll fjögur lögin eru komin ofan á hvert annað með lagi af kremi og karamellubráð á milli.

 11. Að lokum skal smyrja afganginum af kreminu ofan á kökuna og niður með hliðunum. Ekki hafa áhyggjur ef kremið dugar ekki, þá smyrjum við bara því sem til er þunnt yfir og þetta verður fallega nakin kaka (e. naked cake). Það þykir ekki verra að sjáist glitta í svampbotninn í gegnum kremið og að hún sé ekki algerlega þakin. Loksins smá láta afganginn af söltu karamellubráðinni leka yfir efsta lag kökunnar og niður með hliðunum. Það fer vel að skreyta kökuna með muldum hnetum.
Þessi kaka er fullkomin fyrir viskí-unnendur.
Þessi kaka er fullkomin fyrir viskí-unnendur. mbl.is/JetandIndigo
mbl.is