Unaðsleg aspasstykki

Sjúklega lekkert eins og einhver myndi segja.
Sjúklega lekkert eins og einhver myndi segja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sú var tíðin að aspas var eingöngu borðaður niðursoðinn hér á landi en nú er tíðin aldeilis önnur og töluvert úrval af þessu sælgæti til í verslunum. Hér gefur að líta sérlega huggulegan partýrétt sem ætti að slá í gegn í hvaða boði sem er. Aspasinn er hér með bæði brie-osti og smjördeigi og má færa nokkuð sannfærandi rök fyrr því að gott boð verði enn betra með kræsingum sem þessum.

Unaðsleg aspasstykki

  • 1 pakki frosið smjördeig
  • 1 ½  - 2 búnt lítill aspas
  • 1 ½  brie
  • 2 msk. olía
  • salt og pipar
  • 1 egg
  • 2 msk. hunang
  • 1 tsk. vatn
  • 1 tsk. timjan

Aðferð:

  1. Þíðið smjördeigið og skerið það í helminga svo hver hluti verður að jafnhliða ferhyrningi. Kveikið á ofninum og stillið á 190 C. Skerið brie-inn í sneiðar (ca. 1/2 cm þykkar) og leggið ofan á smjördeigið á ská.
  2. Veltið aspasnum upp úr olíu, salti og pipar, skiptið svo aspasnum á milli smjördeiganna og leggið ofan á brie-inn. Vefjið endum smjördeigsins utan um aspasinn og klípið deigið vel saman.
  3. Hrærið eggið saman og penslið því á smjördeigið. Bakið stykkin inni í ofni í um það bil 20 mín. eða þangað til smjördeigið er orðið vel púffað og byrjað að dökkna fallega.
  4. Hrærið örlitlu vatni saman við hunangið til þess að gera það auðveldara að smyrja með því, hrærið timjani saman við og smyrjið því á heit stykkin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert