Svona heldur þú plöntunum á lífi meðan þú ferð í frí

Ferskar og sprellifandi plöntur eftir tíu daga vist í baðkerinu.
Ferskar og sprellifandi plöntur eftir tíu daga vist í baðkerinu. mbl.is/TM

Ert þú á leiðinni í frí en kannt ekki við það að fá plöntupössun? Tobba Marínós brá sér af landi brott á dögunum en dó ekki ráðalaus þegar kom að plöntuummönnun en það getur verið dýrt spaug að koma heim ef plönturnar eru allar hálfdauðar. Við fengum Tobbu til að deila með okkur þessu snjalla húsráði sem hún lumar á enda sjálfsagt margir sem eru í stökustu vandræðum þar sem þeir eru á leiðinni til útlanda.

„Ég set alltaf allar plöntur í baðkarið ef ég fer í burtu í meira en þrjá daga. Ég úða þær svo duglega og skil þær eftir án pottahlífa (bara í plastpottunum) í baðinu. Þær eru þá ekki í beinu sólarljósi. Flestum plöntum líður betur í nálægð við aðrar plöntur og raka. Þegar ég kem heim er ég svo fljótari að úða þær saman í baðinu,“ segir Tobba um þessa aðferð sem hún mælir svo sannarlega með enda Tobba alveg hreint prýðileg garðyrkjukona og meðlimur í að minnsta kosti einum garðyrkjuhópi á Facebook en slíkt er víst ákaflega mikið í tísku þessi dægrin. 

„Nú síðast for ég í 10 daga og fékk vinkonu til að úða þær einu sinni á meðan ég var í burtu. Þær litu mikið betur út þegar ég kom heim og hefðu vel þolað að lifa 10 daga án heimsóknar.“

„Athugið að blómstrandi plöntur þurfa meiri vökvun og þykkblöðungar minni," segir Tobba að lokum, hæstánægð með sprelllifandi plönturnar sínar.

Tobba Marínós deyr seint ráðalaus.
Tobba Marínós deyr seint ráðalaus.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert