Besta leiðin til að ná blettum

Þvottur.
Þvottur. AFP

Það er fátt verra en að fá leiðindablett í flík – sér í lagi ef hún er hvít. Hér eru nokkrar góðar og viðurkenndar aðferðir til að ná blettum í burtu á fremur einfaldan hátt.

Matarsódi, edik, uppþvottalögur og vetnisperoxíð eru allt efni sem duga vel til að ná úr blettum og stundum þarf blöndu af þessum efnum ef allt um þrýtur.

Matarsódi

Blanda af matarsóda er alltaf góð byrjun ef bletturinn fer ekki í þvotti. Blandið matarsódanum saman við vatn þar til lausnin er vel hvít og látið flíkina liggja í blöndunni í að minnsta kosti hálftíma.

Það má líka setja matarsódann í þvottavélina til að auka virkni þvottaefnisins. Einnig er hægt að búa til hálfgert mauk með því að blanda matarsódanum við vatn og láta liggja á blettinum áður en flíkin fer í þvottavélina.

Edik

Edik er afskaplega vinsælt hreinsiefni og mjög öflugt. Líkt og matarsódi er hægt að setja edik í þvottavélina til að auka virkni þvottaefnisins en annars er hægt að leggja flíkina í bleyti í vægri edikblöndu áður en hún fer í þvott.

Edik og matarsódi virka líka vel saman. Prófaðu að blanda matarsóda og edik til að búa til mauk og nudda því beint á blettinn. Látið liggja á blettinum í hálftíma áður en flíkin er þvegin.

Uppþvottalögur

Uppþvottalögur er ekki bara til að þrífa potta og pönnur. Svo öflugur er uppþvottalögurinn að uppþvottalögur er notaður til að ná olíu af fuglum eftir olíuleka.

Uppþvottalögurinn er frábær til að ná blettum úr flíkum í hvaða lit sem er. Hann virkar sérstaklega vel á fitu- og snyrtivörubletti.

Vetnisperoxíð (e. hydrogen peroxide)

Nuddaðu 3% vetnisperoxíði á blóðbletti til að ná þeim úr en einnig er hægt að setja vökvann í þvottavélina til að hvítta þvott.

Spritt

Spritt er mikill og góður blettaeyðir og getur jafnvel ráðið við blek. Bleyttu flíkina og settu sprittið beint á blettinn og láttu flíkina bíða örlitla stund áður en hún fer í þvottavélina.

Ef þessi efni duga ekki ein og sér er kominn tími til að bretta upp ermarnar. Þá má blanda saman vetnisperoxíði, matarsóda og vatni. Búið til mauk með því að setja einn hluta vetnisperoxíð, einn hluta matarsóda og tvo hluta vatn. Látið flíkur með blóð-, matar- eða svitablettum liggja í blöndunni áður en þær fara í þvottavélina.

Önnur aðferð er að blanda einum hluta af uppþvottalegi, tveimur hlutum vetnisperoxíði og nægum matarsóda til að úr verði þykkt mauk. Setjið á svitabletti og nuddið vel. Látið liggja í 30 mínútur áður en þið þvoið flíkina í þvottavél.

Ef bletturinn er orðinn of gamall getur þetta ráð brugðist þannig að ekki bíða of lengi með að ráðast á blettinn því öll viljum við að flíkurnar okkar endist vel og lengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert